Hvetja þarf drengi til að lesa meira

Bækur geta verið af ýmsu tagi

Skólarnir eru kjörinn vettvangur til þess að uppræta staðlaðar kynjaímyndir og leggja grunn að nýjum hugsunarhætti um karlmennsku og náms- og starfsval til framtíðar. Þetta kom fram í umræðum á fundi norrænu jafnréttisráðherranna í Málmey í dag, samkvæmt frétt á vef Norðurlandaráðs.

Norðurlandasamstarf um jafnréttismál hefur nú staðið yfir í 40 ár og því var horft fram á veginn í umræðum ráðherranna á jafnréttisráðstefnunni Nordiskt Forum. Eygló Harðardóttir, jafnréttisráðherra Íslands og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar 2014, lagði áherslu á að jafnréttisstarf á Norðurlöndum taki til karlmanna og drengja:

„Á næstu árum ættum við að beina sérstakri athygli að mótun karlmennskuímynda í samfélaginu og áhrifum þeirra á samskipti kynjanna.“

Maria Arnholm (FP), jafnréttisráðherra Svíþjóðar, lagði áherslu á að það væri ekki síst námsins vegna sem þyrfti að efla jafnréttismiðaða nálgun í skólastarfi:

„Við þurfum að leggja okkur fram um að jafna mun á námsárangri kynjanna, meðal annars með því að hvetja fleiri drengi til að lesa meira.“  

Finnski sendiherrann í Svíþjóð, Harry Helenius, benti á mikilvægi þess að mennta kennara og námsráðgjafa í jafnréttismálum, en Solveig Horne, jafnréttisráðherra Noregs (Frp), minntist sérstaklega á tengsl skóla, aðlögunar og vinnumarkaðar:

„Menntun gerir fólki kleift að sjá sér farborða. Það er mikilvægt jafnréttismál að fleiri konur af erlendum uppruna fari út á vinnumarkað. Tungumálakunnátta og menntun eru þar lykilatriði.“

Ráðherrarnir voru á einu máli um að staðlaðar kynjaímyndir, sem látnar væru óáreittar, gætu stuðlað að kynbundnu ofbeldi í samfélaginu. Manu Sareen (RV), jafnréttisráðherra Danmerkur, varaði einnig við kynjamisrétti í daglegu lífi fólks:

„Líkamlegt ofbeldi er öfgakennd birtingarmynd þess að grundvallarréttindi kvenna séu lítilsvirt. En við þurfum líka að berjast gegn kynjamisrétti í daglegu lífi okkar, svo sem þegar konur verða fyrir áreitni í skóla, vinnu eða öðru opinberu rými.“

Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra mynd/velferðarráðuneytið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert