ISAVIA lokar þremur flugvöllum

Tryggingar einkaflugvéla gera flestar kröfu um að lent sé á …
Tryggingar einkaflugvéla gera flestar kröfu um að lent sé á skráðum völlum. Styrmir Kári

ISAVIA hyggst loka Sprengisandsvelli, Kaldármelum og Siglufjarðarvelli nú í sumar. Ástæðan er sögð vera í nafni hagræðingar og sparnaðar. Flugmálafélag Íslands mótmælir ákvörðuninni og segir að sérstakt sé að lendingarstöðum sem þessum sé lokað í þágu flugöryggis og sparnaðar en ekki sé dýrt að viðhalda umræddum stöðum. Flugmálafélagið bendir einnig á að í samþykktum ISAVIA sé tekið fram að tilgangur félagsins sé meðal annars rekstu og uppbygging flugvalla.

Stefnt er á að lokunin taki gildi þann 1. júlí næstkomandi en til vara þann 16. október.

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, staðfestir ákvörðunina og segir það sérkennilega nálgun að loka flugvelli í þágu flugöryggis því lendingastaðir sem þessir hafi í gegnum tíðina sannað gildi sitt. Matthías segir einnig ISAVIA ganga hart fram í þessum málum og taki gjarnan einhliða ákvarðanir um mál sem þessi.

Afleiðing lokunarinnar verður meðal annars sú að áætlunarvélum verður óheimilt að lenda á þessum völlum auk þess sem tryggingar einkaflugvéla krefjast flestar að lent sé á skráðum völlum þar sem vissa er um ákveðinn aðbúnað þeirra. Einnig má nefna að upplýsingar um vellina verða ekki birtar á flugkortum í framtíðinni enda verða þeir ekki skráðir sem slíkir. Löggiltum lendingarstöðum mun því fækka á landinu.

Friðþór Eydal, talsmaður ISAVIA, segir lokun flugbrautar á Siglufirði vera vegna hrakandi ástands hennar og ekki verði veitt fé til viðhalds. Ástæðan fyrir lokun Sprengisandsbrautarinnar sé meðal annars vegna þess að skammt frá sé rekin flugbraut í Nýjadal. Flugbrautinni á Kaldármelum verður lokað vegna þess að hún er ekki lengur í þjónustusamningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert