„Kannski er fólki alveg sama?“

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

„Við munum aldrei fá þessa nýju stjórnarskrá ef alltaf er kosið aftur og aftur það fólk sem vill hana ekki til að halda utan um stjórnartauma landsins. Kannski er fólki alveg sama þó að þjóðaratkvæðagreiðslan um nýja stjórnarskrá sé vanvirt?“

Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hún fjallar um drög að nýrri stjórnarskrá sem samin voru af stjórnlagaráði á síðasta kjörtímabili og rætt var um að gætu tekið gildi 17. júní 2014, það er að segja í gær. Frumvarp byggt á drögunum fór ekki í gegnum Alþingi fyrir síðustu þingkosningar. Þess í stað var skipuð sérstök stjórnarskrárnefnd til þess að fjalla um endurskoðun stjórnarskrárinnar undir forystu Sigurðar Líndal lagaprófessors.

„Mótmæli um þessa málsmeðferð á grunnstoðum samfélags okkar er uppihaldið af allt of fáum. Ég er þakklát þessum fáu og vildi óska að fleiri myndu skilja að grundvallarbreytingar kalla á úthald og fjöldahreyfingu. En afsakanir fyrir því að gefast upp eru háværari en dugurinn sem til þarf til að koma á alvöru breytingum. Sennilega eru flestir bara svona sáttir við hlutina eins og þeir eru?“ spyr hún og bætir við:

„Valdhöfum og andstæðingum breytinga á stjórnarskrá tókst að taka samhuginn um grundvallarbreytingar á þessu samfélagi almenningi til góða, inn á fjarstæðuna um að þetta snerist meira og minna um ESB sem er auðvitað bábilja en ákaflega auðveld populísk leið til að stoppa framfarir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert