Hagmælti hefðarkötturinn Jósefína

Harpa og Jósefína við prjónaskap.
Harpa og Jósefína við prjónaskap. Ljósmynd/Atli Harðarson

Að sjálfsögðu fór hún í sparibúning á þjóðhátíðardeginum, hún fylgist vel með öllu slíku. Hún er mikill aðdáandi Ólafs Ragnars, Mubaraks, fyrrverandi Egyptalandsforseta, Berlusconis, fyrrverandi Ítalíuforseta, og annarra fressa sem eru duglegir að merkja,“ segir Harpa Hreinsdóttir túlkur og talsmaður Jósefínu Dietrich, víðfrægs hefðarkattar sem býr á Akranesi.

„Hún heitir fullu nafni Jósefína Meulengracht Dietrich von Steuffenberg og samkvæmt fésbókarsíðu hennar er hún frá Alexandríu í Egyptalandi. Hún ólst upp í pýramídunum og var tilbeðin. En síðan hefur hún lifað nokkuð mörg líf. Fæðingardagur Jósefínu er sá sami og söngkonunnar Marlene Dietrich, en Jósefína virðist hafa verið Marlene og leikið í Bláa englinum. Þegar við fengum hana hjá Kattholti á sínum tíma var hún mjög hás og talaði alveg eins og Marlene og einmitt þess vegna fékk hún þetta millinafn. En hún heitir Jósefína af því að hún vitjaði nafns, manninn minn dreymdi að hún kæmi til sín og segðist heita Jósefína.“

Jósefína er mannfræðingur

Jósefína er af ákaflega tignum ættum og hún á sitt eigið skjaldarmerki, enda er hún mjög konunglega sinnuð. „Skjaldarmerkið birti hún fyrst á fésbókarsíðu sinni þegar danski krónprinsinn ákvað að láta dóttur sína heita í höfuðið á henni,“ segir Harpa og bætir við að sem stendur sé Jósefína aðallega mannfræðingur og ljóðskáld. „Hún er afar hagmælt og hefur gefið út nokkrar ljóðabækur. Hún er í kveðskaparfélagi og fær boð þegar félagið fer í ferðalög, en hún hefur ekki gefið sér tíma í flakk.

Mér skilst að hún sé að skrifa æviminningar sínar en það gengur hægt, því hún hefur mikið umleikis.“ Í ljóðabók Jósefínu eru jólasálmar, pólitísk ljóð, erfikvæði og fleira. Hún hefur t.d. ort í minningu fallinna læða sem hún hefur sérstakt dálæti á, má þar nefna Silvíu Kristel og Amy Winehouse tónlistarkonu. „Jósefína yrkir stundum mjög dýrt og hún hefur fengið mikið hrós hjá virtum hagyrðingum. Bjarki Karlsson sendi henni áritað eintak af metsölubók sinni, en þar talar hann um Jósefínu sem skáldsystur sína. Hún er því hátt skrifuð í hópi tvífættra skálda. Ljóð eftir hana hafa margsinnis birst í Vísnahorni Morgunblaðsins og hér á heimilinu er til stórt úrklippusafn. Einnig hefur ljóð eftir hana verið flutt í sjálfu Ríkisútvarpinu, en það var um geitur.“

Harpa segir að trúmál Jósefínu séu flókin. „Hún trúir á Alheimsköttinn og er oft í einhverskonar sambandi við hann, en hún er líka mikill aðdáandi Múhameðs af því að hann átti köttinn Murezza. Hún hefur mjög sterkar pólitískar skoðanir og hún rekur pólitískan flokk, Minnsta flokkinn, og það eru kettir í sex efstu sætunum en Jósefína er sjálf í tveimur efstu sætunum. Hún hafði af pólitísku hyggjuviti sínu raðað einstaklingum á listann sem höfða til ákveðinna hópa, þarna var einn alþýðuköttur og einn glæpaköttur. Hún hefur boðið fram bæði í bæjarstjórnarkosningum og í alþingiskosningum, en aðalkosningaloforð Minnsta flokksins var að gefa öllum helling af peningum, og trompaði þar með loforð Framsóknarflokksins. En í bæjarstjórnarkosningunum talaði Jósefína mest fyrir hundauðsstefnu, sem fólst í því að útrýma hundum úr Akranesbæ. Henni er afar illa við hunda og segir þá ill dýr. Hún hefur ort ljóð um illsku þeirra. Reyndar býr pínulítill hundur hér á efri hæðinni en Jósefína heldur því statt og stöðugt fram að hann sé á stærð við Sívalaturn, slík ógn er hann í hennar augum.“

Minnsti flokkurinn hefur lofað ýmsu fleiru, til dæmis mús í hvert mál. En þótt ekki hafi náðst köttur inn í kosningunum telur Jósefína að Minnsti flokkurinn hafi unnið stórsigur í þingkosningunum og birti hún því til sönnunar mynd af forsíðu DV þar sem forseti Íslands var að óska Jósefínu til hamingju með stærsta sigur í sögu lýðveldisins, en það fer tvennum sögum af því hvort sú mynd hafi verið fölsuð.

Erfiði málfarskötturinn Eiður

Jósefína hefur nokkra ritara á fésbókarsíðu sinni, enda veitir ekkert af því, hún þarf að sinna fræðistörfum og hún þarf líka að íhuga í marga tíma á dag og vera í sambandi við Alheimsköttinn. Á heimilinu er annar köttur sem er yngri en Jósefína, fjarskyldur frændi hennar. „Hann heitir Eiður Svanberg og er málfarsköttur, hann er hér í ótímabundnu fóstri og þessum tveimur köttum semur ekki mjög vel. Eiður er vitgrannur en Jósefína hefur reynt að kenna honum að draga til stafs með engum árangri, hún útskrifaði hann því eftir tveggja ára nám með umsögninni: Sjálfbjarga til daglegs lífs. Jósefína er að skrifa ævisögu Eiðs í hjáverkum, sem verður mjög stutt, en hún heitir Ólæsinginn sem kunni ekki einu sinni að reikna.“

Eiður var erfiður í kosningabaráttunni en hann var varaformaður og var næstum rekinn úr því embætti, en Jósefína vill þagga niður læðubundið ofbeldi sem átti sér stað. Einnig kom upp stóra bælismálið, þegar Eiður ákvað að taka hennar bæli yfir, en málið leystist farsællega. Jósefína á marga vini og aðdáendur á fésbókinni og hún baðar sig í aðdáun þegar hrúgast inn lækin. „Hún fær jólagjöf og jólakort frá aðalaðdáanda sínum sem heitir Olli. Hann sendir henni oft camenbertost sem hún er mjög hrifin af, en hún er frekar hrifin af öllu sem fólk borðar. Hún hefur líka ort nokkur matarljóð.“ Jósefína er auk þess mikill femínisti og hún hefur ort ljóð sem hefst á orðunum: Ég er fagur femínisti og fer á kostum.

Linkur á ljóðabók: this.is/atli/ljod/ljodabok_josefinu_myndskreytt_4_utgafa.

Erfiljóðið um Sylviu Kristel (1952-2012)

Sylvía mín kunni bæði'að kitla ‘og kjá

-yndi mörgu lofnar- lá

löngum hjá.

En hart er nú í heimi og ég hörmung frá

öllu verri en mega „mjá“

mönnum tjá.

Meinleg örlög merkislæður margar hrjá.

Brosað aldrei aftur fá

augun blá.

Ljósmynd/Atli Harðarson
Ljósmynd/Atli Harðarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert