Verzló vinsælasti framhaldsskólinn

Verzlunarskóli Íslands er vinsælastur meðal nýútskrifaðra 10. bekkinga
Verzlunarskóli Íslands er vinsælastur meðal nýútskrifaðra 10. bekkinga mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Verzlunarskóli Íslands er vinsælasti framhaldsskólinn meðal nýútskrifaðra 10. bekkinga í ár. Skólanum bárust samtals 650 umsóknir, en þar af settu 485 nemendur skólann í fyrsta val. Skólar með bekkjarkerfi eru vinsælir meðal umsækjenda í ár eins og áður. 

Innritaðir voru 340 nemendur í Verzlunarskólann, en valið er inn samkvæmt meðaltali skólaeinkunna í fjórum greinum. Þar hafa stærðfræði og íslenska tvöfalt vægi miðað við hinar tvær sem eru norðurlandamál, enska, náttúrufræði eða samfélagsfræði.

Lægsta einkunn inn í Verzlunarskólann var 8,8. Auk þess voru þó skoðaðar umsóknir nemenda með einkunnir milli 8,0 og 8,8 og 30 teknir inn úr þeim hópi.

100 vísað frá í Kvennó

Menntaskólinn við Hamrahlíð fylgir fast á hæla Verzlunarskólans með 649 umsóknir úr 10. bekk, en af þeim voru hins vegar 367 nemendur með skólann sem sitt fyrsta val. 262 umsækjendur fengu boð um skólavist og var meðaleinkunn inn í skólann 8,38 að sögn Sigurborgar Matthíasdóttur konrektors. Hún segir ekki tíðkast að gefa upp lægstu einkunn inn í skólann, en allir yfir 8,38 ættu þó að hafa komist inn.

628 sóttust eftir skólavist við Kvennaskólann í Reykjavík og þar af höfðu hann 287 nemendur sem fyrsta valkost. Skólinn tók 203 nemendur inn, en af þeim voru 187 með hann í fyrsta vali. Kvennaskólinn þurfti því að vísa frá 100 nemendum sem settu hann í fyrsta sæti og segir rektor skólans lægstu einkunnina inn hafa verið vel yfir 8.

Menntaskólanum í Reykjavík bárust 256 umsóknir í fyrsta vali og 221 í öðru, eða samtals 477. Af þeim 244 nemendum sem teknir voru inn í skólann höfðu 235 sett skólann í fyrsta val. Þar af leiðir að 21 nemanda með skólann í fyrsta vali var vísað frá. Meðaleinkunn nemenda sem teknir voru inn var yfir 9 að sögn Yngva Péturssonar rektors, en lægsta einkunn 8,3.

Miklar framkvæmdir við MS

Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund, segir aðsókn í skólann hafa verið minni nú en undanfarin ár. Þó þurfti að vísa frá tæplega 70 nemendum, en 237 voru teknir inn. Heildarfjöldi umsókna var á fjórða hundrað. 

„Þetta skýrist eflaust m.a. af því að þegar nemendur komu hingað að skoða í vetur þá blasti bara við hola þar sem áður var bygging,“ segir Már.

Miklar framkvæmdir standa nú yfir við nýja byggingu skólans, en áætlað er að öll aðstaða batni til muna þegar hún verður fullbúin, sem áætlað er að verði í lok júní 2015. MS leigir nú hluta byggingar Menntaskólans Hraðbrautar í Faxafeni og eru þar allar skrifstofur til húsa sem og níu kennslustofur.

„Við munum geta bætt við um 100-150 nemendum þegar nýja byggingin verður tekin í gagnið. Fyrst og fremst mun aðstaða nemenda og kennara hins vegar stórbatna og þeir fá almennilegt mötuneyti og annað slíkt sem verið hefur ábótavant.“

„Erfitt að hafna nemendum sem vilja koma“

Metaðsókn var í Fjölbrautaskólann í Garðabæ í ár, en Garðbæingum er veittur ákveðinn forgangur við inntöku á bóknámsbrautir og almenna braut. Á sérhæfðari brautir á borð við hönnunarbraut og listnámsbraut gilda einkunnir hins vegar alfarið.

200 nemendur settu FG í fyrsta val og 301 í annað, en Kristinn Þorsteinsson skólameistari segir að enn sé unnið í málum nokkurra Garðbæinga sem ekki komust inn vegna einkunna. Þegar hefur 193 verið veitt skólavist.

„Aðsókn af þessu tagi getur verið erfið þegar við teljum okkur hafa skyldur við umhverfið, en markmiðið er að koma inn öllum Garðbæingum sem sækja um,“ segir Kristinn.

„Við hefðum viljað fá fleiri nemendaígildi, en fáum ekki. Þeim sem eru vanari að hafna nemendum finnst þetta kannski ekki eins mikið mál, en okkur finnst mjög erfitt að hafna mörgum nemendum sem hingað vilja koma og læra.“

Uppfært: Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu er réttur fjöldi heildarumsókna í Verzlunarskóla Íslands 639, en ekki 650 eins og kom fram í fréttinni. Af þessu leiðir að heildarfjöldi umsókna úr 10. bekk var mestur í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en þar sóttu 649 10. bekkingar um skólavist. 

Hart barist í kappáti á MH-Kvennó deginum svokallaða
Hart barist í kappáti á MH-Kvennó deginum svokallaða mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Framkvæmdir standa nú yfir við nýja byggingu Menntaskólans við Sund.
Framkvæmdir standa nú yfir við nýja byggingu Menntaskólans við Sund. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert