Niðurstöður kosninga valda áhyggjum

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, flytur ræðu á flokksráðsfundi …
Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, flytur ræðu á flokksráðsfundi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það virðast vera skammtímasjónarmið og einstök mál umfram heildarsjónarmið og framtíðarsýn sem ráða því hvernig kjósendur ráðstafa atkvæðum sínum,“ sagði Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, á flokkráðsfundi í morgun. „Niðurstaða kosninganna hlýtur að valda ákveðnum áhyggjum.“

Björn Valur kvaðst vera mjög ánægður með frambjóðendur Vinstri grænna í sveitarstjórnarkosningunum, þeir hafi verið rökfastir, málefnalegir og aldrei þurft að draga til baka stefnu sína eða málefni.

Styrkleiki að útiloka öfga

Birni Val fannst það merki um styrk að í Reykjavík og á Ísafirði hafi kjörnir meirihlutar útilokað samstarf við ákveðna stjórnmálamenn. „Við eigum að setja markmiðin hærra en nú er gert. Því er fagnaðarefni að samstaða um að útiloka stjórnmálamenn sem byggja tillögur á öfgum sé til staðar. Mér finnst það vísir á pólitískt heilbrigði, styrk og ábyrga stjórnmálamenn.“

Birni Val þótti furðu sæta að málefni VG, sem hann sagði í eðli sínu góð, næðu ekki til stærri hóps fólks en raun bar vitni í sveitarstjórnarkosningunum en hann sér jafnframt tækifæri. „Flokkslínur eru ekki eins skýrar og þær voru. Kjósendur krefja okkur um að við stöndum við það sem við segjum. Í grófum dráttum erum við öll leitandi. Kjósendur eru leitandi að haldreipi og fótfestu, það er ákveðin gróska til staðar og hlutirnir eru á hreyfingu. Í þessu felast tækifæri fyrir okkur í VG sem og alla stjórnmálamenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert