Fimmti hver Íslendingur fékk greitt frá TR

Þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins við Laugaveg.
Þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins við Laugaveg. mbl.is/Eggert

Ársskýrsla Tryggingastofnunar fyrir árið 2013 er komin út. Hér á vefnum er hægt að skoða hana í pdf-útgáfu.

Í ársskýrslunni kemur m.a. fram að nærri 68.500 manns fengu greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2013, um 3.500 fleiri en 2012. Rúmlega fimmti hver landsmaður fékk því greiðslur í einhverri mynd frá stofnuninni: lífeyri, félagslegar bætur, greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna eða fjárhagsaðstoð til lifandi líffæragjafa. 

Ellilífeyrisþegum fjölgaði um ríflega þrjú þúsund (12%) á milli ára. Það er umfram árvissa fjölgun eldri borgara. Helsta skýringin er lagabreyting sem tók gildi á miðju ári um að lífeyrissjóðstekjur hefðu ekki áhrif á grunngreiðslurnar, ellilífeyrinn.

Örorkulífeyrisþegum fjölgaði um ríflega 4% en endurhæfingarlífeyrisþegum fjölgaði þó hlutfallslega mest eða um 14,5%.

Fjöldi skráðra eftirlitsmála á árinu 2013 var 622, svipað og 2012, og námu greiðslustöðvanir vegna þeirra í árslok tæplega 83 milljónum króna á ársgrundvelli.

Daglega fengu um 500 manns aðstoð í þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar í síma, með tölvupósti eða með því að mæta á staðinn. Nýjum lífeyrisþegum er boðið til kynningarviðtals og þáði um helmingur það. Tilboði um rafræna þjónustuleið hefur verið vel tekið og fjölgaði heimsóknum á Mínar síður um hátt í 30%, segir í frétt frá Tryggingastofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert