Fórnarlamb eigin brandara

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri. mbl.is

„Ég var fórnarlamb míns eigin brandara,“ er haft eftir Jóni Gnarr, fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur, á fréttavef kanadíska dagblaðsins Toronto Star þar sem fjallað er um Jón og nýútkomna bók hans Gnarr! How I Became the Mayor of a Large City in Iceland and Changed the World. Þegar árangur Besta flokksins í borgarstjórnarkosningunum 2010 hafi legið fyrir hafi verið haldnir margir fundir þar sem Jón hafi spurt að því hvernig koma mætti honum úr þeirri stöðu sem hann hefði komið sér í.

Fjallað er um borgarstjóraferil Jóns í umfjölluninni og hvernig það hafi komið til að hann fór út í stjórnmálin. Tilgangurinn hafi verið ádeila á stjórnmálin en ekki hafi verið gert ráð fyrir að Besti flokkurinn myndi ná þeim árangri sem raunin varð. Þegar það hafi hins vegar legið fyrir hafi flokkurinn þurft að mynda meirihluta með einhverjum í borgarstjórn. Sjálfstæðismenn hafi ekki komið til greina enda hafi þeir litið á Jón sem trúð og gagnrýnt hann harðlega í kosningabaráttunni. „Þetta var blanda af fyrirlitningu og fjaldskap,“ er haft eftir honum. „Þeir tóku snemma þann pól í hæðina að reyna að brjóta mig á bak aftur.“ Niðurstaðan hafi orðið sú að vinna með Samfylkingunni.

Margir listamenn urðu fyrir vonbrigðum

Fram kemur í umfjölluninni að Besti flokkurinn hafi staðið frammi fyrir því að taka erfiðar ákvarðanir eins og þær sem sneru að fjármálum Reykjavíkur. Hækka hafi þurft skatta, skera niður og segja upp starfsmönnum. Jón segist einfaldlega hafa gert það sem þurft hafi. Sumir listamenn í borginni, sem talið hafi að þeir væru komnir með sinn mann við stjórnvölinn, hafi orðið fyrir vonbrigðum. „Klíkurskapur hefur verið mikill vandi í íslenskum stjórnmálum,“ er haft eftir Jóni. „Þannig að þegar við náðum kjöri töldu margir í hinum skapandi greinum að þeirra tími væri kominn fyrir klíkuskap. Margir urðu afar vonsviknir.“

Rætt er við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, sem segir að Jón og Besti flokkurinn hafi klárlega breytt stjórnmálalandslaginu á Íslandi. Jón hafi sýnt að hefðbundnar hugmyndir um stjórnmálamenn ættu ekki alltaf við. Hann hafi þó ekki verið mjög virkur borgarstjóri í þeim skilningi að hann hafi ekki verið að skipta sér mikið af daglegum rekstri Reykjavíkurborgar heldur eftirlátið það þeim sem þekktu það betur. Það hafi hugsanlega verið jákvætt. Hann hafi frekar látið til sín taka í tengslum við mýkri mál eins og hljólreiðastíga, opin svæði fyrir almenning og réttindabaráttu samkynhneigðra.

Byrja hvern dag með stóru faðmlagi

Dagur B. Eggertsson, arftaki Jóns á borgarstjórastóli, tekur undir það að Jón hafi breytt stjórnmálunum. Spurðir í hverju það hafi nákvæmlega falist segir hann: „Við hefjum hvern dag með stóru, hlýju faðmlagi. Það er alls ekki mjög algengt í stjórnmálum.“ Fram kemur að Jón sé þessa dagana á ferðalagi um Bandaríkin að kynna bókina sína. Ekkert liggi fyrir um hvað taki við hjá honum. Haft er eftir honum að sumir spyrji hvort hann ætli að snúa sér aftur að gríninu. Hann hafi hins vegar aldrei sagt skilið við það.

„Grínið er lífið að mínu áliti. Það er stærsti sannleikurinn og tilgangur alls. Það er næsta stig mannlegrar greindar og eitt af því fáa sem greinir okkur frá öðrum dýrum. Við getum gert grín að kind en kind getur ekki gert grín að okkur. Ég get gert grín að stjórnmálum en stjórnmálin geta ekki gert grín að mér. Kímnigáfa kemst næst því sem við köllum frjálsan vilja. Ég ætla að halda áfram að nota hana og njóta hennar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert