Stóðu sig vel og hlutu styrk frá HÍ

Tuttugu og sex afburðarnemendur tóku á móti styrkjum úr Afreks- …
Tuttugu og sex afburðarnemendur tóku á móti styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ í dag mbl.is/Ómar Óskarsson

Tuttugu og sex afburðarnemendur tóku á móti styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við athöfn á Háskólatorgi í dag. Nemendurnir náðu allir framúrskarandi árangri á stúdentsprófi sínu og munu hefja nám við Háskóla Íslands í haust.

mbl.is ræddi við Lilju Björg Sigurjónsdóttur og Böðvar Páll Ásgeirsson sem bæði hlutu styrk að þessu sinni. 

Við val á styrkhöfum var meðal annars litið til árangurs á stúdentsprófi en einnig voru önnur sjónarmið lögð til grundvallar, svo sem virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangur á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum.

Þetta er í sjöunda sinn sem styrkir úr sjóðnum eru veittir, en sjóðurinn var stofnaður árið 2008. Markmið hans er að styrkja nýnema til náms við Háskóla Íslands.

Fór í fjölbraut á fertugsaldri

Lilja Björg Sigurjónsdóttir er ein af þeim afburðanemendum sem að hlýtur styrk í ár. Hún brautskráðist frá Fjölbrautarskólanum í Ármúla í vor og var semidúx, en hún var komin yfir þrítugt þegar hún skráði sig í námið. „Ég hafði misst vinnuna stuttu áður og bauðst til þess að taka þátt í verkefni hjá Vinnumálastofnun sem hét Nám er vinnandi vegur. Þar var boðið upp á styrk í fjórar annir gegn því að maður færi í nám. Það var upphafið að þessu, en svo gekk þetta svona rosalega vel þannig að ég ákvað bara að klára þetta,“ segir Lilja Björg.

Lilja segist vera í skýjunum með styrkinn, en velgengnin í náminu kom henni mikið á óvart. „Ég tók námið eiginlega alveg frá grunni og féll meira að segja í samræmdu prófunum í 10. bekk á sínum tíma. Ég endaði svo semidúx í vor svo að það kom mjög á óvart hversu vel þetta gekk.“

Hún ber Fjölbraut við Ármúla vel söguna og segist hafa fengið mikinn stuðning og hvatningu frá nemendum ekki síður en kennurum. Lilja Björg stefnir á nám í hjúkrunarfræði. „Ég byrjaði á félagsfræðibraut og svo fór ég að velta fyrir mér hvað ég vildi gera í raun og veru og þá stóð þetta upp úr. Ég hef gaman af því að vera með fólki og ég held að þetta henti mér vel. Úr varð að ég skipti yfir á náttúrufræðibraut, sem að ég var mjög hrædd við vegna stærðfræðinnar. Það var því mjög gaman að fá raungreinaverðlaun frá Háskólanum í Reykjavík við útskriftina,“ segir Lilja Björg.

Hún segir að lykillinn að góðum námsárangri sé mikil vinna. „Vinna jafnt og þétt allan tímann og þá kemur þetta. Skipuleggja sig vel og aldrei draga það að vinna verkefnin heldur gera þau frekar jafn óðum.“

Skipulagningin skilar sér í náminu

Böðvar Páll Ásgeirsson er annar af þeim styrkþegum sem mbl.is tók tali. Hann útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands í vor. Hann er afreksmaður í handknattleik og var m.a. valinn efnilegasti leikmaður úrvalsdeildarinnar árið 2012 og hefur einnig leikið með yngri landsliðum Íslands. 

„Ég fékk bara að vita þetta í síðustu viku. Þetta er alveg frábært,“ segir Böðvar um styrkinn, sem vinnur í Áhaldahúsinu í Mosfellsbæ í sumar. Hann segir að með mikilli skipulagningu hafi tekist ágætlega að tvinna saman handboltann og námið. 

„Ég spila með Aftureldingu. Stefnan hefur alltaf verið sett á atvinnumennsku en ég hef lent í meiðslum sem að ég er að stíga upp úr. Stefnan er ennþá sett út en ég er ekki að stressa mig jafn mikið á því og ég gerði,“ segir Böðvar sem gerir ráð fyrir því að verða orðinn heill af axlarmeiðslum á næsta tímabili.

„Fyrir mig var lykillinn að fylgjast með í tímum og læra svo vel fyrir prófin. Ég er ekkert að læra yfir mig eða neitt svoleiðis, en auðvitað hjálpar að hafa gott minni og svona,“ segir Böðvar. Hann stefnir á efnaverkfræði í háskólanum. „Ég hef gaman af efnafræði og líka eðlisfræði og finnst skemmtilegt að geta tvinnað þetta einhvern veginn saman.“

Tuttugu stelpur og sex strákar

Styrkþegarnir eru ýmist nýstúdentar eða nemendur sem útskrifuðust vorið 2013. Nemendurnir eru eftirfarandi:

Arnar Kári Sigurðarson, Árný Jóhannesdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Birna Brynjarsdóttir, Böðvar Páll Ásgeirsson, Dagbjört Inga Grétarsdóttir, Daníel Kristinn Hilmarsson, Darri Egilsson, Elínrós Þorkelsdóttir, Esther Hallsdóttir, Freyja Björk Dagbjartsdóttir, Guðbjörg Júlía Magnúsdóttir, Halldóra Sigríður Halldórsdóttir, Heiður Þórisdóttir, Jóhannes Gauti Óttarsson, Karítas Pálsdóttir, Katrín Blöndal, Kristín Kolka Bjarnadóttir, Lilja Björg Sigurjónsdóttir, Margrét Lilja Arnarsdóttir, Marta Jónsdóttir, Sunneva Smáradóttir, Unnur Ýr Haraldsdóttir, Þjóðbjörg Eiríksdóttir, Þorkell Már Einarsson og Þórunn Helgadóttir.

Lilja Björg Sigurjónsdóttir hlaut styrk í ár.
Lilja Björg Sigurjónsdóttir hlaut styrk í ár. Úr einkasafni.
Böðvar Páll Ásgeirsson útskrifaðist úr Verslunarskóla Íslands.
Böðvar Páll Ásgeirsson útskrifaðist úr Verslunarskóla Íslands. Úr einkasafni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert