Markaðurinn bíður eftir fólkinu

Alls voru 13 nemendur sem brautskráðust úr ævintýraferðamennsku.
Alls voru 13 nemendur sem brautskráðust úr ævintýraferðamennsku. Ljósmynd/Keilir

Fyrsta brautskráning nemenda í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku á vegum Keilis og Thompson Rivers University í Kanada var í síðustu viku. Er þetta jafnframt í fyrsta skipti sem Keilir brautskráir nemendur á vegum erlends háskóla. Allir nemendurnir höfðu starfstilboð í höndunum að náminu loknu.

„Ég er meira en sáttur, ég er hissa hvað þetta gekk vel. Þegar maður byrjar með eitthvað nýtt á maður von á því að einhverjar þúfur velti manni en við rétt svona hristumst, það var ekki mikið meira en það,“ segir Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis. 

Alls útskrifuðust 13 nemendur náminu, en þeir hafa allir fengið starf í kjölfar námsins. „Allir nemendurnir voru komnir með atvinnutilboð í mars, en síðasta kúrsinum lauk í byrjun maí. Það mætti því segja að markaðurinn bíði hungraður eftir að fá þetta fólk til sín,“ segir Arnar. Tveir nemendanna fengu atvinnutilboð erlendis frá, frá Spáni og Englandi, en aðrir munu starfa hér á landi.

Aðsókn eykst í takt við atvinnutækifæri

Arnar segir að næsta haust muni Keilir fjölga nemendum upp í 20 talsins, en 16 nemendur hófu nám síðastliðið haust. Nú þegar hefur töluverður fjöldi umsókna borist, en hluti þeirra er erlendis frá.

Námið er kennt á ensku og segir Arnar það víðáttumikið. „Við miðum námið að markaðnum í heild en bindum okkur ekki við Ísland. Þú lærir þó flest það sem er í boði á Íslandi og ferð í klettaklifur, á raftbát, kajak, gengur hálendið, klifrar í ís og skipuleggur ferðir. Helmingur eininganna er í bóklegu námi og helmingur eininganna er í verklegum áföngum.“

Námið er í samstarfi við Thompson Rivers University háskólann, en þar hefur námið verið kennt í 27 ár. Á Íslandi er fyrsti hluti námsins kenndur, sem er 60 einingar eða fullt háskólanám í eitt námsár. Annar hluti námsins er einnig til 60 eininga og gefur diplómagráðu, og sá þriðji er sömuleiðis 60 einingar, en það er full bakkalárgráða.

Eins og stendur býður Keilir einungis upp á fyrsta árið en nemendur hafa farið til Kanada til frekari sérhæfingar. „Við munum mjög líklega taka upp annað árið innan örfárra ára. Núna getum við boðið nemendum upp á kynningu á öðru árinu og hefur það verið gert í náminu hjá okkur. Þá hafa nemendur strax eitthvað til þess að hugsa um og stefna að,“ segir Arnar. 

Námið er víðáttumikið að sögn Arnars Hafsteinssonar, forstöðumanns Íþróttaakademíu Keilis.
Námið er víðáttumikið að sögn Arnars Hafsteinssonar, forstöðumanns Íþróttaakademíu Keilis. Ljósmynd/Keilir
Nemendur læra leiðsögn í hinum ýmsu aðstæðum.
Nemendur læra leiðsögn í hinum ýmsu aðstæðum. Ljósmynd/Keilir
Tveir nemendur hófu störf erlendis í ævintýraferðamennsku.
Tveir nemendur hófu störf erlendis í ævintýraferðamennsku. Ljósmynd/Keilir
Í náminu læra nemendur að glíma við hinar ýmsu aðstæður.
Í náminu læra nemendur að glíma við hinar ýmsu aðstæður. Ljósmynd/Keilir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert