963 fóstureyðingar í fyrra

Flestar fóstureyðingar voru gerðar á konum í aldurshópnum 20-24 ára.
Flestar fóstureyðingar voru gerðar á konum í aldurshópnum 20-24 ára. Morgunblaðið/Rósa Braga

Framkvæmdar voru 963 fóstureyðingar hér á landi á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum í nýjasta tölublaði Talnabrunns, fréttabréfs landlæknisembættisins. Voru það 17 færri fóstureyðingar en árið á undan þegar þær voru 980. Hafa ekki verið framkvæmdar færri fóstureyðingar á einu ári frá árinu 2008 þegar þær voru 959.

Í Talnabrunni kemur fram að flestar fóstureyðingar séu gerðar á konum í aldurshópnum 20-24 ára, en þær voru 24,5 á hverjar þúsund konur í þeim aldurshópi.

Næstflestar voru fóstureyðingarnar hjá konum í aldurshópnum 25-29 ára; 19,2 á hverjar þúsund konur. Jafnframt kemur fram að fóstureyðingum í yngsta aldurshópnum, 15-19 ára, hafi fækkað nokkuð á undanförnum árum.

Þannig hafi 12,8 stúlkur af hverjum þúsund í þeim aldurshópi gengist undir fóstureyðingu árið 2013, en það er nokkru undir meðaltali áranna 1993-2012.

Karlar oftar í ófrjósemisaðgerð

Þá kemur fram í tölum landlæknis að 675 ófrjósemisaðgerðir hafi verið gerðar hérlendis á síðasta ári. Þar af voru karlmenn ríflega 75% þeirra sem fóru í slíka aðgerð, eða 507 talsins. Hafa aldrei fleiri karlar farið í slíka aðgerð á einu ári.

Hefur hlutfall karlmanna í ófrjósemisaðgerðum vaxið ört á síðustu árum, en það var einungis 42% fyrir áratug. Samkvæmt tölum landlæknis er algengast að karlmenn á aldrinum 35-44 ára fari í slíka aðgerð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert