„Ég er alveg rasandi“

Elín Björg Jónsdóttir furðaði sig á vinnubrögðum í aðdraganda málsins.
Elín Björg Jónsdóttir furðaði sig á vinnubrögðum í aðdraganda málsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB var harðorð í garð stjórnvalda vegna fyrirhugaðs flutnings Fiskistofu til Akureyrar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hún furðaði sig á því hvernig staðið væri að málinu og sagðist telja að þau vinnubrögð sem viðhöfð væru hefðu frekar tíðkast fyrir nokkrum áratugum.

Elín segir ekkert samstarf hafa verið við BSRB í aðdraganda málsins og þó að margoft hefði verið spurt hvort einhverjar breytingar stæðu til hefðu engar upplýsingar fengist. Hún sagði að upplýsa þyrfti starfsfólk betur þegar ákvarðanir af þessu tagi væru teknar.

Þegar Elín var innt eftir því hvort hún væri ósátt vegna málsins sagði hún: „Ég er meira en ósátt, ég er alveg rasandi. Mér finnst ekki boðlegt að bjóða starfsfólki upp á svona framkomu.“

Elín sagði að starfsfólk stofnunarinnar gæti tæplega rifið upp fjölskyldur sínar og farið með þær norður á land og sagðist óttast að þekking og reynsla hyrfi frá fyrirtækinu samhliða brotthvarfi starfsfólks.

Hún sagði alla sitja uppi með fjölmargar spurningar en engin svör við því hvers vegna aðgerðin kæmi til, en sagði að BSRB myndi nú leita svara.

Flutningur starfsemi á landsbyggðina lengi staðið til

Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar, sagði í þættinum að færsla starfsemi á landsbyggðina hefði verið á stefnuskrá ríkisstjórna langt aftur í tímann. Hann ítrekaði jafnframt að í núverandi stjórnarsáttmála væri sérstaklega talað um þá stefnu og breið samstaða hefði verið meðal flokka um byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017.

Þóroddur sagði stóru pólitísku spurninguna vera hvort markmiðið væri að byggja upp fleiri sterka byggðakjarna á landsbyggðinni eða ekki. Hann sagðist telja að færslan myndi styrkja bæði Akureyri og Miðnorðurland í heild sinni.

Hann ítrekaði þó að bjartsýnt væri að ætla sér að fólk myndi flytja í stórum stíl milli landshluta. Algengara væri að fólk skipti um störf til þess að vera nær heimilinu heldur en að flytja heimilið nær starfinu.

Frétt mbl.is: Segir aðferðafræðina kolranga

Frétt mbl.is: Flytja höfuðstöðvarnar til Akureyrar

Frétt mbl.is: Ákvörðun ráðherra áfall

Þóroddur telur bjartsýnt að ætla að fólk flytji í stórum …
Þóroddur telur bjartsýnt að ætla að fólk flytji í stórum stíl frá Reykjavík á Norðurland mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert