1000 manns vildu í tölvunarfræði

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík Ómar Óskarsson

Yfir 700 manns sóttu um að hefja nám við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík í haust. Innan við helmingur þeirra kemst inn í námið. „Við gerum ráð fyrir því að það skili sér svona milli 300 og 350 manns í haust,“ segir Yngvi Björnsson deildarforseti tölvunarfræðideildar við skólann, en að hans mati er hægt að þakka jákvæðri umfjöllun í samfélaginu um þennan gífurlega áhuga.

„Þessi fyrirtæki sem hafa vaxið úr tölvunarfræðinni eins og Google og Facebook hafa verið mikið áberandi og laðar fólk að tölvunarfræðinni. Einnig hafa öll þessi öpp sem eru í gangi gert fólk áhugasamt um þennan geira.“

Áhuginn kemur í bylgjum

Samkvæmt Yngva er þessi mikli áhugi eitthvað sem er að gerast út um allan heim. „Áhuginn á tölvunarfræði er alþjóðlegur, skólar út um allan heim hafa orðið varir við þennan aukna áhuga. Annað sem er skemmtilegt er að áhuginn kemur alltaf í bylgjum. Fyrst myndaðist gífurlegur áhugi fyrir tölvunarfræði í kringum árin 1986 og 1987. Svo kom hann aftur í kringum 2000 og er svo í fullum gangi núna,“ segir Yngvi sem segir jafnframt að deildin reyni að mæta þessum fjölda eins vel og hægt er. 

Þegar umsóknir í deildina eru skoðaðar er helst litið til meðaleinkunnar úr framhaldsskóla. „Einnig er athugað hvort viðkomandi sé með nægilegan bakgrunn í stærðfræði. „Það eru ákveðnir framhaldsskólaáfangar í faginu sem viðkomandi þarf að hafa tekið til þess að komast inn. Þetta er aðallega fólk sem er að koma af námsbrautum eins og náttúru- og eðlisfræðibraut en einnig viðskipta- og hagfræðibraut,“ segir Yngvi en einnig er áberandi að fólk sé að koma af vinnumarkaðinum. „Við sjáum einnig í auknum mæli að fólk með aðra háskólagráðu sé að koma í tölvunarfræði. Þá er ég að tala um fólk úr öllum stéttum en ekki endilega úr raungreinum.“

Geta gengið í störf út um allan heim

Yngvi telur að helstu ástæðurnar fyrir þessum áhuga séu þær að tölvunarfræði býður upp á mikla atvinnumöguleika. „Það er mikil gróska í gangi í þessum geira á Íslandi en einnig mikil vöntun á starfskrafti. Síðan er þetta mjög alþjóðlegt starf þar sem tölvunarfræðingur getur gengið í störf út um allan heim. Ég held að ungt fólk eigi að hugsa um það þegar þaður velur sér nám. Ekki bara fyrir þau heldur líka er það mjög jákvætt fyrir Ísland að fólk héðan starfi erlendis. Fólk skilar sér heim bæði með nýja þekkingu, viðskiptasambönd og fleira.“

Yngvi er ekki með tölur yfir brottfall úr deildinni en telur þó að það sé töluvert. „Hlutir sem tengjast tölvunarfræði eru svolítið kenndir í framhaldsskólum og það þarf klárlega að aukast. Það er alltaf hópur af mjög kláru fólki sem kemur í deildina út af umræðunni og gera sér síðan grein fyrir að þetta eigi ekki við þau. “

Úr 45 í 300

Að sögn Ólafs Péturs Pálssonar, deildarforseta Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar  Háskóla Íslands hefur umsóknum um BS nám í tölvunarfræði einnig fjölgað undanfarin ár. Í ár bárust deildinni um 300 umsóknir, en þær voru til samanburðar um 45 fyrir sex árum. „Einnig hefur umsóknum í hugbúnaðarverkfræði fjölgað en þær fóru úr 12 í 77 á undanförnum sex árum, það er búið að vera hálfgerð sprenging í þessu. Aðsóknin hefur sex eða sjö-faldast á þessum tíma.“

Ólafur Pétur gerir ráð fyrir því að aukin umræða um tölvunarfræði í þjóðfélaginu hafi áhrif á áhugann. „Einnig hafa bæði Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins kallað eftir fólki með þessa menntun og hefur það vissulega áhrif,“ segir Ólafur Pétur. „Fólk er búið að átta sig á því að þetta er góð menntun. Það eru einnig margir sem hafa lokið BS gráðu í einhverri annari grein eins og til dæmis og verkfræði sem bæta síðan við sig tölvunarfræði.“

Samkvæmt Ólafi Pétri eru þessar upplýsingar fengnar úr umsóknarkerfi Háskólans og er því ekki endanlegur fjöldi þeirra  sem mæta í haust. „Það detta alltaf einhverjir út, en um 70- 80% þeirra sem sækja um skila sér væntanlega í skólann í haust.“

Bjóða upp á undirbúningsnámskeið

Inntökuskilyrði í námið er stúdentspróf eða sambærilegt próf og komast allir inn sem hafa það. Samkvæmt Ólafi Pétri er samt mælt með því að vera með próf af náttúru- eða eðlisfræðibrautum en það er þó ekki skylda. „Námið krefst þó nokkurrar kunnáttu í stærðfræði við erum ekki með lágmarkskröfur.  Ekki er heldur  krafa um undirstöðuþekkingu í  forritun, enda er hún lítið sem ekkert kennd í framhaldsskólum. Ég held að það séu bara tveir bekkir í framhaldsskólum landsins þar sem forritun er skylda,“ segir Ólafur Pétur og bætir við að deildin bjóði upp á undirbúningsnámskeið fyrir þá sem ekki hafa lært forritun.

Aðspurður hvort að deildin höndli þennan gífurlega fjölda segir Ólafur Pétur að það gangi ágætlega. „Í sumum tilvikum þarf að tvíkenna námskeið fyrstu vikurnar og einnig höfum við fjölgað aðstoðarkennurum verulega. Við reynum að gera okkar besta og tökum vel á móti öllum.“

Yngvi Björnsson, deildarforseti tölvunarfræðideildar HR.
Yngvi Björnsson, deildarforseti tölvunarfræðideildar HR. Rax / Ragnar Axelsson
Háskóli Íslands útskrifaði 42 einstaklinga með BS gráðu í tölvunarfræði …
Háskóli Íslands útskrifaði 42 einstaklinga með BS gráðu í tölvunarfræði 21. júní s.l. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert