Óbreytt staða hjá flugvirkjum

Flugvirki að störfum.
Flugvirki að störfum. mbl.is/Eggert

Enn ber mikið í milli í kjaraviðræðum flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair. Deiluaðilar funduðu í Karphúsinu í dag en án árangurs. Næsti fundur fer fram 3. júlí en Maríus Sigurjónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, er ekki bjartsýnn á framhaldið.

„Kjarasamningur flugvirkja er barn síns tíma og er orðinn úreltur, það þarf að laga hann,“ sagði Maríus í samtali við mbl.is í kvöld.

Aðspurður segir Maríus að verði ekkert að gert gæti það leitt til þess að flugvirkjar fari út í frekari aðgerðir, en hann segir að verið sé að egna flugvirkja til þess.

Maríus nefnir að þegar vinnuveitandinn þurfi engar áhyggjur að hafa þá bíði hann bara rólegur. „Þegar menn hafa ásinn í erminni þá bíða þeir bara,“ segir hann. Maríus segir hins vegar flugvirkja staðráðna í að ná fram sínum kröfum.

Icelandair fer meðal annars fram á breytingar á vaktakerfi flugvirkja, innleiðingu á meiri vaktavinnu á viðhaldsstöðinni en flugvirkjar vilja láta meta aukna ábyrgð til launa.

„Það er verið að egna okkur út í frekari framkvæmdir ef ekkert verður að gert,“ segir Maríus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert