Ferðamenn bera með sér rakkamítil

Rakkamítillinn Skordýrið er um fjórir millimetrar að lengd, með átta …
Rakkamítillinn Skordýrið er um fjórir millimetrar að lengd, með átta fætur.

Lítt kræsilegur laumufarþegi slæddist með ferðamanni sem kom hingað til lands frá Bandaríkjunum í maí, áttfætt blóðsuguskordýr, svonefndur rakkamítill. Um var að ræða fullþroskað kvendýr sem hafði tekið sér bólfestu á baki ferðamannsins.

Rakkamítillinn hefur fundist sex sinnum hér á landi. Í öllum tilvikum sem vitað er um barst hann með erlendum ferðamönnum frá Ameríku. Mítillinn getur borið með sér sýkingar en að sögn Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, er þó ekki þar með sagt að hann sé endilega hættulegur mönnum. Venjulega finnist mítillinn fljótlega eftir að hann festir sig á menn og minnka líkurnar á sýkingu allverulega ef hann er fjarlægður snemma. Það séu aðallega hundar sem geti orðið illa úti vegna sýkingar frá rakkamítli en fullorðin dýr sækja fyrst og fremst í þá og önnur meðalstór spendýr sem hýsla.

Þrjár mítlategundir landlægar hér

Margir anda þó eflaust léttar að heyra að Erling telur engar líkur á að rakkamítillinn nái fótfestu hér á landi. „Ég hef enga trú á að hann myndi þrífast hér. Hann kemur hins vegar áfram til með að berast hingað fyrir slysni,“ segir Erling sem útilokar þó ekki að rakkamítillinn geti fjölgað sér tímabundið á býli eða jafnvel heimili með fjölda hunda.

Þrjár tegundir mítla eru landlægar á Íslandi að sögn Erlings. Þær eru lundamítill og skógarmítill, en hann getur m.a. borið með sér lyme-sjúkdóm, auk sjaldgæfrar tegundar á fuglum sem lítið er vitað um. Mítlar af þessu tagi berast aðallega með farfuglum en einnig stöku sinnum með ferðamönnum og hundum.

Hvað nafngiftina á rakkamítlinum varðar segir Erling að hann hafi valið honum það nafn vegna þess að hann leggst á hunda og þvottabirni (e. raccoon). Hann leggur mikið upp úr því að finna góð íslensk nöfn á nýjar tegundir. „Ég sef með orðabækur á bringunni til að fá hugmyndir. Það er mjög gaman þegar maður er nýbúinn að gefa út eitthvert heiti og það er rétt komið út á vefinn þá byrja menn að tala um þetta eins og eðlilegasta hlut. Þá hlýtur að hafa tekist vel til,“ segir hann og hlær. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert