Læknar geta losnað við læknarápara

Læknadóp er vinsælt meðal íslenskra vímuefnasjúklinga.
Læknadóp er vinsælt meðal íslenskra vímuefnasjúklinga. mbl.is/Golli

Læknum stendur til boða að hafa beinan aðgang að lyfjagagnagrunni embættis landlæknis en í hann er safnað saman gögnum í rauntíma, meðal annars ávísunum lyfja til einstaklinga. Aðeins tekur þá stutta stund að fletta upp hvort einstaklingur hafi leitað til annarra lækna eftir ávísun á sömu lyf.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var greint frá rannsókn Finnboga Ómarssonar læknanema en hann skoðaði lyfjagagnagrunn Landlæknis frá árinu 2004 til 2013. Í ljós kom að um fjögur hundruð manns rápa árlega á milli tíu eða fleiri lækna til að fá ávísanir fyrir ávanabindandi lyfjum. Þannig voru það 464 einstaklingar í fyrra sem stunduðu svonefnt læknaráp.

Embætti landlæknis hefur rekið lyfjagagnagrunn frá árinu 2002 og hafa gögn úr honum reynst mikilvæg bæði til að fylgjast með þróun lyfjanotkunar og ávísanavenjum lækna. Á árinu 2012 var gagnagrunnurinn fluttur í rauntímauppfærslur og hafa læknar haft möguleika frá sama ári á aðgangi að rauntímagrunninum í prufuverkefni. Með því að fletta upp í honum fá þeir allar upplýsingar um lyfjanotkun skjólstæðinga sinna síðastliðin þrjú ár.

Þrátt fyrir að læknar hafi þennan aðgang komust 464 einstaklingar upp með það í fyrra að rápa á milli tíu eða fleiri lækna til að fá nefndar ávísanir á lyf.

Verða að gefa sér tíma til að fletta upp

Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri eftirlits og gæða hjá embætti landlæknis, segir að reynt hafi verið að sporna við læknarápi í árafjöld og vekja athygli lækna á því að tilteknir einstaklingar leiti til fleiri margra lækna. „Þannig að það er að skila einhverjum árangri, en það eru einfaldlega ekki nægilega margir læknar sem vara sig á þessu.“ Anna Björg tekur raunar fram að hafa verði í huga að margir þeirra sem leita til margra lækna geri það af nauðsyn, s.s. vegna veikinda

Hún segir að stórt skref hafi verið stigið í fyrra þegar ný útgáfa af gagnagrunninum var sett í loftið en með henni hafa læknar beinan aðgang að lyfjagagnagrunninum. „Nú þegar eru meira rúmlega þrjú hundruð læknar sem hafa fengið sér þennan aðgang og nýta sér hann. En þetta er prufuverkefni ennþá og því höfum við ekki beint þeim tilmælum til lækna að verða sér úti um aðgang. En við munum á seinni stigum fara í átak og hvetja þá til þess.“

Þegar læknar eru farnir að nota aðgang sinn í meiri mæli ætti læknaráp að geta heyrt sögunni til. „En læknar verða þá að sjá af tíma sínum, fara inn í grunninn og fletta skjólstæðingum sínum upp. Það er engin trygging fyrir því að þeir geri það, en þetta á að draga verulega úr þessu vandamáli. En ef læknar eru ekki með aðgang eða gefa sér ekki tíma til að fletta upp í gagnagrunninum þá getur fólk haldið þessu áfram.“

Anna segir það alls ekki taka langan tíma að fletta upp í gagnagrunninum og að þeir læknar sem nota hann að jafnaði séu mjög ánægðir með viðmótið. „En við vinnum sífellt í því að gera þetta liprara á meðan þetta er í prófun.“

Rítalín er misnotað á Íslandi.
Rítalín er misnotað á Íslandi. Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert