Þrír Íslendingar á heimsþingi KFUM

Einn af sextíu tuttugu manna hópum sem vinna saman að …
Einn af sextíu tuttugu manna hópum sem vinna saman að stefnumörkun. Jóhann Þorsteinsson er þriðji frá vinstri í efri röðinni.

Þessa dagana stendur yfir átjánda heimsþing KFUM og er það að þessu sinni haldið í Estes Park í Colorado í Bandaríkjunum. Um 1300 manns taka þátt í þinginu en í ár eru þrír fulltrúar frá Íslandi á mótinu. Mikilvægasta verkefni þingsins er að móta og festa í sessi stefnuskrá til næstu fjögurra ára.

Að sögn Jóhanns Þorsteinssonar, sviðsstjóra æskulýðssviðs KFUM og KFUK á Íslandi, sem er einn þriggja Íslendinga á heimsþinginu, er frábært að verða vitni af þeirri málefnavinnu sem fram fer á þinginu en um 60 tuttugu manna hópar koma saman dag hvern og vinna að stefnumörkun undir styrkri handleiðslu ungs fólks á aldrinum tuttugu til þrjátíu ára.

Um 220 ungmenni hafa á síðastliðnum tveimur árum tekið þátt í alþjóðlegri leiðtogaþjálfun sem hefur miðað að því að undirbúa þau til að leiða þá vinnu sem fram fer á heimsþinginu og er einn Íslendingur í þeim hópi, Daníel Bergmann.

Sameiginleg sýn allra 119 aðildarlanda KFUM og KFUK snýr að því verkefni að efla og styrkja ungt fólk til þess að láta gott af sér leiða og vera virkir þátttakendur í samfélaginu, auk þess sem að KFUM og KFUK vill segja sögu þeirra fjölmörgu ungmenna sem búa við óréttlæti eða erfiðar félagslegar aðstæður.

Þann 6. júní síðastliðinn fagnaði KFUM 170 ára starfi með ungmennum og af því tilefni var gefið út myndband sem fangar vel þá sýn hreyfingarinnar að standa upp fyrir ungu fólki og láta rödd þeirra heyrast. Myndbandið má skoða hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert