Mikil aukning í fíkniefnaakstri

Lögreglan heldur úti virku eftirliti í umferðinni og flytur ökumenn …
Lögreglan heldur úti virku eftirliti í umferðinni og flytur ökumenn á lögreglustöð séu þeir grunaðir um fíkniefnaakstur. mbl.is/Júlíus

Mikil aukning hefur orðið undanfarin ár í skráðum brotum ökumanna vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Karlmenn eru í miklum meirihluta meðal brotamanna og langflest brotin eru skráð um helgar.

Síbrotamenn eru jafnframt mun fleiri í akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna heldur en ölvunarakstri. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vann fyrir mbl.is um þróun aksturs undir áhrifum.

Brotum fjölgar en slysum ekki

Árið 2008 voru skráð 320 brot þar sem ökumenn óku undir áhrifum ávana- eða fíkniefna og 1.089 ölvunarakstursbrot. Fíkniefnaakstursbrotum fjölgaði síðan stöðugt næstu árin, en í fyrra var skráður fjöldi brotamanna undir áhrifum fíkniefna kominn upp í 816 og voru þau aðeins um 80 færri en þau 894 ölvunarakstursbrot sem skráð voru.

Frá ársbyrjun 2014 til 18. júní voru skráð 435 ölvunarakstursbrot og 517 brot vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Af þessum tölum að dæma má því ætla að ökumenn teknir undir áhrifum fíkniefna verði fleiri en ölvaðir ökumenn í ár.

Lögreglan bendir á að þrátt fyrir þessa miklu aukningu skráðra brota sé raunin ekki endilega sú að mun fleiri aki nú undir áhrifum fíkniefna. Aukin þekking og betri búnaður lögreglunnar valdi því að færri komist nú upp með að aka undir áhrifum en áður.

Tölur lögreglunnar um slys vegna fíkniefna– og ölvunaraksturs renna stoðum undir þetta, en ekki virðist vera samhengi milli aukningar brota og slysa. Þannig voru skráð slys vegna fíkniefnaaksturs jafn mörg árið 2013 og árið 2009, eða 45, þrátt fyrir að tæplega tvöfalt fleiri ökumenn hafi verið teknir undir áhrifum fíkniefna 2013.

Karlar í 87% tilvika

Karlar eru mikill meirihluti þeirra sem teknir eru akandi undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem og undir áhrifum áfengis. 86% þeirra sem óku undir áhrifum fíkniefna á tímabilinu 2008 til júní 2014 voru karlmenn og sömuleiðis voru 79% ölvaðra ökumanna karlkyns.

Meðalaldur er mun lægri meðal þeirra sem teknir eru fyrir fíkniefnaakstur, en hann var 27 ár á tímabilinu 2008 til júní 2014, en meðalaldur ölvaðra ökumanna á sama tímabili var 34 ár.
Langflest brot eru skráð um helgar og á það sérstaklega við um ölvunarakstur. Þannig voru 56% ölvunarakstursbrota í fyrra skráð á laugardegi eða sunnudegi, en 42% brota þar sem ökumenn voru undir áhrifum fíkniefna.

Ætla má að fjöldi ölvunarakstursbrota haldist í hendur við áfengisneyslu tengda skemmtanalífi miðbæjarins sem jafnan lifnar mikið við um helgar, en neysla fíkniefna virðist dreifast jafnara á alla daga vikunnar.

Fleiri síbrotamenn í fíkniefnaakstri

Algengara er að einstaklingar séu teknir ítrekað fyrir akstur undir áhrifum ávana- eða fíkniefna en fyrir ölvunarakstur. Þannig voru 120 brotamenn teknir í fyrra fyrir fíkniefnaakstur oftar en einu sinni, þar af þrír teknir sjö sinnum eða oftar. 56 óku hins vegar ölvaðir oftar en einu sinni, en enginn oftar en fjórum sinnum. 20% þeirra sem óku undir áhrifum fíkniefna voru ábyrgir fyrir 42% brota í fyrra, en í tilfelli ölvunaraksturs voru 7% brotamanna ábyrgir fyrir 13% brota.

Gríðarlega háar sektir og ökuleyfissvipting geta legið við bæði ölvunar- og fíkniefnaakstri. Lögum og verklagi lögreglu vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna var breytt árið 2006 og jukust þá möguleikar lögreglumanna til að mæla fíkniefnavímu ökumanna að sögn Gunnars Rúnars Sveinbjörnssonar upplýsingafulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Virkt eftirlit í umferðinni

Lögreglan heldur úti virku eftirliti með ölvunar- og fíkniefnaakstri, en t.a.m. er fylgst markvisst með ökumönnum sem koma út úr vínbúðum og öldurhúsum. Einnig eru ökumenn stöðvaðir ef aksturslag þykir undarlegt eða ef lögreglumenn bera kennsl á ökumann vegna eldri brota.

„Ef grunur vaknar um fíkniefnaakstur er ökumaður færður strax á næstu lögreglustöð þar sem tekin eru af honum blóð- og þvagprufa og sett í rannsókn,“ segir Gunnar.

Skráðum atvikum aksturs undir áhrifum ávana- eða fíkniefna hefur fjölgað …
Skráðum atvikum aksturs undir áhrifum ávana- eða fíkniefna hefur fjölgað stöðugt undanfarin ár. Súlurit/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Slysum vegna fíkniefnaaksturs hefur ekki fjölgað í samhengi við aukningu …
Slysum vegna fíkniefnaaksturs hefur ekki fjölgað í samhengi við aukningu brota. Súlurit/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Flest brot eru skráð um helgar, sérstaklega á það við …
Flest brot eru skráð um helgar, sérstaklega á það við um ölvunarakstur. Súlurit/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Lögreglan fylgist sérstaklega með ökumönnum sem koma út úr vínbúðum …
Lögreglan fylgist sérstaklega með ökumönnum sem koma út úr vínbúðum og öldurhúsum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert