Íslendingur sagður látinn í skemmtigarði

mbl.is

18 ára piltur lést í dag í slysi í skemmtigarði á Benidorm á Spáni. Í spænsku blöðunum El Mundo og Información er því haldið fram að pilturinn sé íslenskur og hafi verið í sumarfríi með fjölskyldu sinni. Erlendum fjölmiðlum ber þó ekki saman um þjóðerni piltsins, þannig segist breska blaðið Mirror hafa eftir stjórnendum garðsins að pilturinn sé Breti.

Utanríkisráðuneytið hefur í kvöld reynt að fá staðfest hvort rétt sé að um Íslending sé að ræða, en það er enn óstaðfest. Skemmtigarðurinn sem um ræðir ber nafnið Terra Mítica en pilturinn er sagður hafa dvalið ásamt foreldrum og vinni í bænum Torrevieja, sem er vinsæll sumardvalarstaður.

Að sögn spænska dagblaðsins El Mundo var pilturinn um borð í hringekju sem nefnd er Inferno, en galli á sætisól hans varð til þess að hann kastaðist út úr vagninum á mikilli ferð. Var hann fluttur á sjúkrahús alvarlega slasaður, þar sem hann lést skömmu síðar. Hringekjan nær allt að 60 km hraða á klukkustund í 25 metra hæð, samkvæmt El Mundo.

Norska sjónvarpsstöðin TV2 hefur rætt við Norðmenn sem voru staddir í garðinum þegar slysið átti sér stað. Segja þeir að margir hafi orðið vitni að slysinu, sem hafi átt sér stað á háannatíma. Norðmennirnir höfðu sjálfir setið í hringekjunni örfáum klukkustundum áður en slysið átti sér stað. Margir gestir hafi yfirgefið garðinn í kjölfar slyssins.

Samkvæmt erlendum fjölmiðlum hefur spænska lögreglan lokað af slysstað og hafið rannsókn á málinu. Þá votta stjórnendur garðsins fjölskyldu piltsins samúð sína í yfirlýsingu, sem El Mundo vitnar til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert