Stofnkostnaður hraðlestar 100 milljarðar

Framkvæmda- og stofnkostnaður við hraðlest frá Reykjavík til Keflavíkur er áætlaður um 102 milljarðar króna. Þetta kemur fram í skýrslu um mat á hagkvæmni og raunhæfni hraðlestar sem kynnt var á blaðamannafundi í dag. 

Í skýrslunni kemur fram að forsendur fyrir lestarsamgöngum á milli Keflavíkur og miðborgar Reykjavíkur hafa gjörbreyst undanfarin ár vegna verulegrar fjölgunar farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll á hverju ári, auk tækniframfara sem gera framkvæmdina hagkvæmari. 

Lestarferð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, alla leið til BSÍ í Reykjavík yrði um 15-19 mínútur ef af byggingu hraðlestarkerfisins yrði. Ef miðað er við að undirbúningur fyrir framkvæmdirnar geti hafist árið 2015 er talið að rekstur geti hafist árið 2023. Áætlaður farþegafjöldi það ár er um 4 milljónir manna, 2,3 milljónir flugfarþega frá Keflavíkurflugvelli og 1,7 milljónir annarra farþega af Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að 50% flugfarþega í millilandaflugi muni nýta lestina. 

Fjórar lestir yrðu í rekstri, hver með fimm vagna. 

Arðbært sem einkaframkvæmd

Í skýrslunni er fargjaldið áætlað á bilinu 800-3.800 krónur. Tekjur af rekstrinum á fyrsta rekstrarárinu yrðu um 10,5 milljarðar króna en rekstrarkostnaður á ári um 5,8 milljarðar. Talið er að verkefnið skili hagnaði fyrir skatta frá og með fjórum árum eftir opnun, og að verkefnið fari að greiða skatta á 11. ári. Þá er í skýrslunni talið að verkefnið sé arðbært sem einkaframkvæmd og þurfi ekki á beinum framlögum ríkis eða sveitarfélaga að halda. Hins vegar þurfi að skýra skattalega umgjörð verkefnisins, til dæmis með sérstakri lagasetningu eða fjárfestingarsamningi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert