„Fyrir mér var þetta versta tækið“

Tækið Inferno í skemmtigarðinum Terra Mítica snýr fólki í hringi …
Tækið Inferno í skemmtigarðinum Terra Mítica snýr fólki í hringi um leið og það fer eftir braut á um 60 km hraða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fjölskyldan hugsum með okkur að þetta hefði getað verið við, það er algjörlega á hreinu. Ég sagði við krakkana mína í gær að við myndum aldrei fara í svona tæki aftur og ég var mjög feginn að þau voru sammála mér í því,“ segir Björn Arnar Ólafsson sem var ásamt fjölskyldu sinni í skemmtigarðinum Terra Mítica á miðvikudaginn í síðustu viku.

Þar fór fjölskyldan í rússíbanann Inferno, en í sama rússíbana lést 18 ára íslenskur piltur í gær. Fjöldi Íslendinga hefur sótt garðinn á hverju ári síðan hann opnaði árið 2000, enda er hann í námunda við vinsæla sumardvalarstaði.

Fréttir af banaslysinu komu Birni í opna skjöldu. „Maður fékk vægt sjokk þegar maður sá fréttirnar. Ég er ekki sérstaklega mikið fyrir að fara í þessi tæki en maður gerir ráð fyrir því að þetta sé allt traust. En ég verð að viðurkenna að mér dauðbrá náttúrulega þegar ég sá þessar fréttir. Fyrir mér var þetta versta tækið til þess að fara í í þessum garði,“ segir Björn.

Börn Björns, sem eru 14 ára og 21 árs, fóru margsinnis í tækið. „Stelpan mín sem er 14 ára var búin að dreyma um að fara í þennan garð en seinast þegar við fórum mátti hún ekki fara í tækin því að hún þurfti að vera 1,40 á hæð. En ég hefði ekki fyrir mitt litla líf farið í þennan garð eftir þetta slys,“ segir Björn.

Rússíbaninn fer á ógnarhraða í krappar beygjur

Björn segir að rússíbaninn hafi farið á ógnarhraða í krappar beygjur svo að farþegar sveifluðust til og frá. Farþegarnir eru skorðaðir með öryggisgrind yfir axlirnar sem öryggisbelti er síðan smellt utan um. „Þetta fór alveg dúndurhratt og í þvílíkar beygjur og hringi. Það jákvæða var í raun að ferðin tók örskotsstund. Þessu var fljótt lokið af.“

Inferno rússíbaninn er 25 metra hár og nær 60 km hraða á klukkustund. Hann er framleiddur af þýska fyrirtækinu Stengel Engineering og rannsaka verkfræðingar þar nú hvað fór úrskeiðis. Rannsókn lögreglu miðar að því að reyna að skera úr um hvort beltið hafi losnað eða brotnað. Stjórnendur garðsins segja að öryggisbeltin séu tvítryggð með rafrænni læsingu og eigi ekki að geta opnast á ferð.

„Ég man að maðurinn sem festi okkur skoðaði vel hvort að við værum ekki örugglega föst,“ sagði Björn. „Það versta við tækið var í beygjunum þegar maður hékk einhvern veginn. Þá man ég að ég hugsaði með mér: „Það er eins gott að þessar ólar haldi“.“

Það var ekki margt um manninn á miðvikudaginn í síðustu viku þegar Björn og fjölskylda heimsóttu skemmtigarðinn. Björn tekur undir orð fararstjórans Kristínar Tryggvadóttur og segir að slysið hafi komið honum á óvart enda hafi garðurinn verið í góðu ástandi og á engan hátt verið í niðurníðslu. 

„Það tók sem betur fer stutta stund að fara í gegnum tækið og ég var mjög feginn þegar ferðin var búin. Nú fer maður ekki meira í svona.“

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

Samskonar rússíbönum lokað

„Fólk er skelkað yfir þessu“

Pilturinn sem lést var íslenskur

Íslenskur piltur sagður látinn

Terra Mítica skemmtigarðurinn á Benidorm á Spáni er vinsæll meðal …
Terra Mítica skemmtigarðurinn á Benidorm á Spáni er vinsæll meðal ferðamanna, þar á meðal Íslendinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Rússíbaninn Inferno var byggður árið 2007, en hann er nýjasta …
Rússíbaninn Inferno var byggður árið 2007, en hann er nýjasta tækið í skemmtigarðinum. ThemeParkReview/OldJJMan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert