Safna áheitum með því að „ganga eftir vatni“

Hópur ungmenna úr Grafarvogi mun um helgina ganga áheitagöngu nær 45 km leið frá Álftavatni í Þórsmörk til þess að safna fé fyrir vatnsbrunni í Malaví. Munu krakkarnir ganga samsvarandi vegalengd og íbúar Malaví þurfa að ganga eftir vatni á hverjum degi.  

Verkefnið, sem ber nafnið „Vatn í brunn, vatn í munn,“ er samstarfsverkefni Vilborgar Örnu, pólfara, Vinnuskólans og frístundamiðstöðvarinnar Gufunesbæjar. Hópurinn kallast Styrkurinn og samanstendur af krökkum á aldrinum 14–16 ára úr Grafarvogi. Vinnuskólinn leggur til laun unglinganna í þann tíma sem hópurinn starfar og hefur Vilborg Arna miðlað af reynslu sinni af útivist til krakkanna. 

Vonast til að geta byggt einn brunn

Malaví er eitt þéttbýlasta og fátækasta land Afríku. Aðeins 20,6% íbúa hafa aðgang að vatni. Alnæmi er ein algengasta dánarorsök íbúanna en um 250 þúsund börn hafa misst foreldra sína úr sjúkdómnum. Ekkert rafmagn er í Malaví og flestir íbúanna þurfa að ganga tugi kílómetra á dag til að ná í óhreint vatn sem gæti leitt til sjúkdóma.

Hópurinn vonast til þess að ná að safna 800 þúsund krónum, sem er nóg til þess að byggja einn vatnsbrunn. Einn brunnur getur hjálpað allt að 45–50 þúsund manns. 

Hópurinn er með styrktarreikning á vegum Rauða krossins, 0342-26-555, kt. 530269-2649.

Ef fólk er áhugasamt um að heita á verkefnið, er hægt að hafa samband á netfangið samfelagshopurinn.styrkurinn@gmail.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert