Samskonar rússíbönum lokað

Rússíbaninn Inferno var byggður árið 2007, en hann er nýjasta …
Rússíbaninn Inferno var byggður árið 2007, en hann er nýjasta tækið í skemmtigarðinum. ThemeParkReview/OldJJMan

Rússíbaninn sem íslenskur piltur lét lífið í síðdegis í gær var framleiddur í Þýskalandi og sagður í samræmi við ströngustu öryggiskröfur. Stjórnendur garðsins segjast rannsaka hvað gerðist í samvinnu við verkfræðinga hjáframleiðandanum, þýska fyrirtækinu Stengel Engineering.

Samskonar tæki er einnig að finna í skemmtigörðunum Gröna Lund í Stokkhólmi og Borgbacken í Helsinki. Þeim var báðum lokað í dag vegna banaslyssins á Spáni. „Við erum í náinni samvinnu við bæði framleiðandann og garðinn á Spáni til að komast að því hvað gerðist. Öryggið er alltaf á oddinum,“ hefur sænska Aftonbladet eftir Annika Troselius, talsmanni Gröna Lund.

Fjöldi Íslendinga hefur lagt leið sína í Terra Mitíca skemmtigarðinn síðan hann var opnaður árið 2000. Kristín Tryggvadóttir, fararstjóri á Benidorm, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að reynslan af garðinum væri til þessa afar góð. Skemmtigarðurinn var áður í opinberri eigu sveitastjórnar Valencia, en lýsti yfir gjaldþroti árið 2010 og tóku einkaaðilar þá yfir reksturinn.

Átti ekki að geta opnast á ferð

Slysið varð um kl. 17:30 síðdegis að spænskum tíma þegar pilturinn kastaðist úr rússíbananum á ferð. Fram kemur á vef spænska blaðsins El País að lögregla reyni nú að skera úr um hvort öryggisbeltið losnaði eða hvort það brotnaði.

Spænska blaðið El Mundo hefur eftir upplýsingafulltrúum garðsins að enn sé óljóst hvað nákvæmlega gerðist, kenningar séu ekki annað en einmitt það, kenningar. „Við erum slegin yfir þessu, því á okkar 14 árum hefur aldrei orðið slys. Þetta er nýjasta tækið okkar og frá fyrirtæki sem er leiðandi í heiminum í framleiðslu svona tækja.“

Talsmenn garðsins fullyrða að öryggiskröfur séu mjög strangar, öryggisbeltin séu tvítryggð með rafmagnslæsingu og eigi ekki að geta opnast á ferð. Öll skráningarleyfi hafi verið í lagi og aðbúnaður staðfestur af óháðum eftirlitsaðilum, auk þess sem öryggisathuganir séu gerðar á tækinu á hverjum einasta degi.

Þá hefur El Mundo eftir stjórnendum garðsins að þeir séu í beinu sambandi við fjölskyldu og aðstandendur piltsins og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hjálpa. „Hugur okkar og hjarta eru með fjölskyldunni“

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

„Fólk er skelkað yfir þessu“

Staðfest að pilturinn var íslenskur

Íslenskur piltur sagður látinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert