Strandgötu breytt í „striga“

Strandgötu í Hafnarfirði var breytt í risastóran striga þar sem …
Strandgötu í Hafnarfirði var breytt í risastóran striga þar sem listaverk voru krítuð. mbl.is/Styrmir Kári

Hafnarfjörður hefur tekið á sig nýja og litríkari mynd því í dag var miðbænum lokað fyrir umferð um nokkurra tíma skeið, þegar Strandgötunni var breytt í risastóran „striga“ þar sem börn og unglingar fengu útrás fyrir listsköpun sína með krítar á lofti.

Úr varð um 400 metra langt götulistaverk þar sem kennir ýmissa grasa. Listrænn stjórnandi verksins var listamaðurinn Ingvar Björn, en Hafnfirðingar á öllum aldri lögðu sitt að mörkum. Hálfgerð karnivalstemning myndaðist, því á meðan listaverkið var krítað spilaði hljómsveitin White Signal á Thorsplani og boðið var upp á grill.

Ingvar Björn segir að margir hafi gripið í krítar og þótt hann hafi lagt línurnar að verkinu hafi börn og fullorðnir haft frjálsar hendur. „Hugmyndafræðin hjá mér á bak við þetta er að annar hver maður í Hafnarfirði er listamaður og ég vildi gefa yngstu kynslóðinni færi til að tjá sig. Ég hvatti þau bara til að teikna hvað sem er, það fyrsta sem kæmi upp í hugann.“

Þátttakendur voru á öllum aldri, börn úr leikskólum bæjarins og unglingar úr vinnuskólanum. Aldursbilið endurspeglast í listaverkinu en forvitnir geta brugðið sér í kvöldgöngu og skoðað verkið í Strandgötu í kvöld, áður en það rignir burt.

Ef marka má Ingvar Björn er verkinu þó hvergi nærri lokið, þótt krítunum hafi verið lagt, því ferlið í dag var myndað í bak og fyrir með go pro myndavélum og þyrludróna. Stefnt er að því að varðveita verkið með s.k. „time-lapse“ myndskeiði. 

„Þannig að þetta mun lifa áfram og það verður gaman að sjá útkomuna,“ segir Ingvar Björn. „Svo heyrði maður á fólki að það var alveg í skýjunum með hvað þetta var vel heppnað og það var talað um að endurtaka þetta jafnvel að ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert