Ég vil ekki festast í einhverju einu

Gréta kann vel við sig í návist gamalla húsa með …
Gréta kann vel við sig í návist gamalla húsa með sögu.

Ég gat gleymt mér tímunum saman við að teikna og lita þegar ég var barn, enda var ég mjög rólegur krakki. Mamma gleymdi mér einu sinni heima hjá vinkonu sinni, af því að ég fór inn í herbergi að lita á meðan þær spjölluðu. Þegar mamma var komin heim og hringdi til að athuga með barnið var vinkonan ekki búin að taka eftir því að ég væri enn í húsinu,“ segir myndlistarkonan Gréta Gísladóttir, sem ólst upp í Mosfellsbænum frá níu ára aldri. „Ég hef alltaf þurft ró og ég hef þörf fyrir að vera ein, þó að ég sæki líka í kraftmikla orku og læti,“ segir Gréta, sem ólst ekki upp við listir á sínu heimili. „Ég heyrði snemma að erfitt gæti reynst að lifa á listinni en ég hafði góðar fyrirmyndir í tveimur systrum mömmu og ég leit upp til þeirra. Önnur var mjög flinkur teiknari en hin er ljóðskáld.“

Fann að ég vildi gera þetta

Þegar Gréta var um tvítugt fór hún í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði og þegar hún var tuttugu og fimm ára skellti hún sér til Danmerkur í eitt ár í lýðháskóla til að læra myndlist. „Þá var ég búin að eiga mitt fyrsta barn og Kalli, maðurinn minn, og frumburðurinn fluttu út með mér. Ég fann mig algerlega í þessum skóla og fannst þetta æðislegt. Ég vissi að þetta var það sem ég vildi gera. Þar fékk ég að kynnast ólíkum aðferðum í listinni, meðal annars vann ég í leir og gler og það átti vel við mig. Ég ætla að fá mér ofn einhvern daginn og vinna glerskúlptúra. Ég kynntist líka skartgripagerð þarna úti, en mér finnst gaman að skiptast á, vinna stundum í einhverju mjög fíngerðu og stundum í einhverju grófu. Ég vil ekki festast í einhverju einu. Ég er alltaf leitandi.“

Að þora að láta vaða

Gréta og Kalli höfðu búið í Biskupstungum í nokkur ár þegar þau árið 2008 langaði að breyta til og fluttu norður á Akureyri. Þar fór Gréta í myndlistarnám í Myndlistarskólanum og útskrifaðist frá fagurlistadeild þremur árum síðar. „Mér fannst þetta nám opna mér leiðir, sérstaklega til að þora að hella mér út í eitthvað.“ Að námi loknu fluttu Gréta og Karl aftur á Suðurlandið, að Flúðum, í næstu sveit við Biskupstungurnar. „Núna er ég að leita mér að húsnæði fyrir vinnustofu en draumurinn okkar Kalla er að búa áfram í uppsveitunum og vera með vinnustofu og gallerí sem við gætum tengt tónlistinni, því að Kalli er tónlistarmaður. Það væri gaman að hafa vinnustofuna opna fyrir gestum og jafnvel öðru listafólki til að starfa þar um tíma með mér.“

Rómantíker sem kýs fegurð

Gréta segist langa til að draga upp það fallega í verkum sínum. „Ég veit vel að heimurinn getur verið grimmur en mig langar ekki að leggja áherslu á það í verkunum mínum, aðrir sjá um það. Ætli ég sé ekki svolítið rómantísk,“ segir Gréta, sem nýlega hélt sýningu á eyðibýlinu Ási í Hrunamannahreppi. „Mig langaði til að setja fínlegu verkin mín upp í hráu rými og ég auglýsti á Facebook eftir slíku. Vinkona mín sem hafði alist upp á þessum bæ gekk í málið og úr varð sýningin „Horf tilverunnar“. Ég hef alltaf verið hrifin af því gamla og gömul hús geyma magnaða sögu af hversdagslífi, maður finnur fyrir henni þegar maður kemur inn. Einhver fæddist þarna og einhver dó, fólk elskaðist, reifst og lifði sínu lífi. Í græðginni í dag höfum við líka gott af því að sjá hvað fólk var nægjusamt, þá var ekki hvert barn í stóru sérherbergi. Ég fékk að hitta bóndann sem bjó þarna og hann var svo glaður að ég skyldi færa aftur líf í húsið, fá fólk þangað inn, þó ekki væri nema í tvo daga. Mig langaði til að leiða saman gamla tímann og þann nýja með þessari sýningu.“

Góð útrás á trommunum

Gréta hefur spilað á trommur í mörg ár og hún hefur yndi af dansi og dansar oft sér til ánægju og yndisauka. Hún fer á böll til að dansa og hún dansar líka bara ein, svona eins og annað fólk fer út að skokka eða í ræktina. Hún hefur góða tilfinningu fyrir takti og var fljót að ná grunninum í trommuleiknum. Hún er búin að vera í stöðugri framför á trommunum og er bara orðin alveg ágæt núna. „Við fjölskyldan spiluðum á jólatrésskemmtun í fyrra og líka á 17. júní á Flúðum. Ég hef stöku sinnum spilað eitt og eitt lag með danshljómsveitinni sem Kalli spilar með, Bleki og byttum, en annars spila ég bara heima. Mér finnst rosalega gaman að lemja trommurnar, það er góð útrás og gefur mér kraft og orku. Þegar ég fer á elliheimili verð ég ekki þessi sem prjónar, heldur sú sem spilar á trommur.“

Hægt er að skoða fleiri verk Grétu á vefsíðu hennar: www.gretagisla.is
Mynd í mildum litum við gamla hurð á Ási.
Mynd í mildum litum við gamla hurð á Ási. mbl.is
Myndir Grétu eru margs konar og ævintýralegar.
Myndir Grétu eru margs konar og ævintýralegar. mbl.is
Þetta fagra fljóð skapaði Gréta.
Þetta fagra fljóð skapaði Gréta. mbl.is
Konan með kaffibollana fer vel í hráu rými eyðibýlisins þar …
Konan með kaffibollana fer vel í hráu rými eyðibýlisins þar sem margt ber með sér liðna tíð. mbl.is
mbl.is
Gréta við trommusettið.
Gréta við trommusettið. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert