Ferðamenn fari ekki að jöklinum

Múlakvísl í morgun.
Múlakvísl í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglan á Hvolsvelli mælast til þess við ferðaþjónustuna og ferðamenn, að þeir fari ekki að jökulsporði Sólheimajökuls á meðan óvissustig er í gildi vegna hættu á að flóð geti vaxið með litlum fyrirvara og að vatnið brjóti af sér jökulsporðinn. Ferðamönnum er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl, sérstaklega upptökum  ánna, því brennsteinsvetni berst með hlaupvatni í þær.

Brennisteinsvetni getur skaðað (brennt) slímhúð í augum og öndunarvegi ef styrkur þess eykst, segir í tilkynningu frá almannavarnadeildinni.

Brennisteinsvetni veldur lykt sem almennt er kölluð hveralykt eða jöklafýla. Fyrstu einkenni eitrunar eru vanalega flökurleiki og sviði í augum. Ef þessara einkenna verður vart er mikilvægt að koma sér sem fyrst út af því svæði sem mengunin nær til. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fór í gær í eftirlitsflug með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir Mýrdalsjökul.  Vegna aukins magns jarðhitavatns í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi átti að freista þess að finna upptök vatnsins í þekktum jarðhitakötlum á hásléttu jökulsins.   Vegna skýjafars var skyggni takmarkað og því eru upptök vatnsins óþekkt.  Hins vegar voru ágætis skilyrði við sporða Sólheimajökuls og Kötlujökuls.  Athygli vakti mikill vantsflaumur sem ruddist undan Sólheimajökli, rétt við jökulsporðinn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert