Fjórar kvikmyndir teknar í sumar

Frá frumsýningu myndarinnar Algjör Sveppi og Töfraskápurinn
Frá frumsýningu myndarinnar Algjör Sveppi og Töfraskápurinn mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórar íslenskar kvikmyndir sem fengið hafa framleiðslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands verða teknar upp hér á landi í sumar. Ein mynd verður tekin upp á Vestfjörðum, önnur í Bárðadal og hinar tvær víða um land. 

Myndirnar fjórar sem um ræðir eru fjölbreyttar. Á meðal þeirra er íslensk-danska myndin Þrestir eftir leikstjórann Rúnar Rúnarsson. Mun hún fara í tökur á Vestfjörðum þann 14. júlí næstkomandi. Myndin er ljóðræn dramatísk mynd sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp. Ari endurnýjar kynnin við Láru, æskuvinkonu sína og þau laðast að hvoru öðru. Með aðalhlutverk fara Atli Óskar Fjalarsson, Rakel Björk Björnsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson. Tökur munu fara fram á Flateyri, Suðureyri, Ísafirði og Bolungarvík á Vestfjörðum. 

Hlaut myndin 90 milljón króna styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. 

Sveppi og Gói snúa svo aftur á hvíta tjaldið í október á þessu ári með nýjustu mynd sína, Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum. Myndin er í leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar og hefjast tökur á henni þann 21. júlí.  

Sveppi og Gói snúa aftur á hvíta tjaldið

Í Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum finna vinirnir Sveppi og Villi út að erkióvinur þeirra sé enn á ný að reyna landyfirráð. Í þetta skiptið hefur hann byggt dómsdagsvél  sem getur komið af stað jarðskjálftum og eldgosum. Sveppa, Villa og Góa tekst að koma sér í fylgsni hans sem er staðsett undir hinum ævaforna eldgíg Eldborg. En að komast þangað er aðeins brot af púslinu. Þeir verða að eyðileggja vélina til að Ísland eigi von.

Bakk verður fyrsta leikstjórnarverkefni á kvikmynd í fullri lengd hjá bæði Gunnari Hanssyni og Davíð Óskari Ólafssyni. Tökur á myndinni hefjast í lok júlí. Söguþráður Bakk er svohljóðandi: Árið 1981 bakkaði Þorsteinn faðir Gísla á bíl í kringum Ísland til fjáröflunar fyrir Þroskahjálp og setti heimsmet í leiðinni.  Árið 2013 ætla Gísli og Viðar, æskuvinir frá Hellissandi, að slá heimsmet Þorsteins og safna í leiðinni fyrir góðan málsstað. Þessi hugmynd hljómar spennandi í fyrstu, en fljótlega fara vankantar hennar að koma í ljós. 

Þá hefjast tökur á myndinni Hrútar þann 18. ágúst en myndin er í leikstjórn Gríms Hákonarsonar. 

Hrútar segir frá Gumma og Kidda, sem eru bræður á sjötugsaldri sem búa hlið við hlið í afskekktum dal og leggja stund á sauðfjárrækt. Fjárstofn bræðranna þykir mjög merkilegur og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Bræðurnir hafa lengi eldað grátt silfur saman og hafa ekki talast við í um 40 ár. Með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Tökur munu fara fram á bæjunum Mýri og Bólstað, sem staðsettir eru hlið við hlið í Bárðardal á Norðurlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert