Höfuðkúpubrotinn eftir „set up“

Kúbein.
Kúbein.

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir karlmanni sem grunaður er um aðild að árás á karl og konu aðfaranótt sunnudags. Tveir aðrir voru einnig úrskurðaðir í gæsluvarðhald en hafa ekki kært úrskurðinn til Hæstaréttar. Allir verða í haldi til 18. júlí næstkomandi.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að um klukkan 4.30 aðfaranótt sunnudags hafi borist tilkynning til lögreglu um að ráðist hefði verið á konu en hún hafði óskað eftir aðstoð frá pari sem hún hitti í Reykjavík. Lögregla hafi komið á vettvang og hitti fyrir konu sem virtist í annarlegu ástandi, talaði hratt og óskýrt og var í blóðugum fötum.

Konan greindi frá því að hún hefði verið með þremur félögum sínum í bifreið þegar einn þeirra sagðist vilja hitta einhverja menn í bænum sem hafi ætlað að láta hann fá pening. Ákveðið hafi verið að hittast á tilteknum stað í Hafnarfirði. Þau hafi þar hitt fyrir þrjá menn, rifrildi hafi komið upp og peningurinn ekki fengist.

Eftir að leiðin lá frá Hafnarfirði hringdi einn af þremenningunum, sagðist hafa snúist hugur og skyldi láta þau hafa peninginn. Var þá ákveðið að hittast á á ný.

Þegar þangað var komið mættu mennirnir þrír, en ekki á glæsikerru eins og áður heldur á leigubíl. Er atburðarrásinni eftir það lýst á þessa lund í greinargerðinni: „Þá hafi C sagt að þetta væri „set up“ og beðið D um að aka á brott en einhverra hluta vegna hafi B farið út úr bifreiðinni og gengið að leigubifreiðinni. A hafi sagt að B hafi síðan komið til baka með opið enni og illa farinn og að sömu þrír menn og þau hittu á [...] hafi verið á eftir honum og verið að ýta við honum. Hún hafi þá farið út úr bifreiðinni til að reyna að aðstoða B en þá hafi C og D ekið burt. A hafi sagt þessa þrjá menn hafa lamið hana og B í leigubifreiðinni og ekið með þau af stað.“

Í leigubifreiðinni hafi mennirnir talað um að láta parið hverfa „ofan í steypugólf“ en konunni hafi tekist að skríða út um glugga bifreiðarinnar. Í kjölfar leitaði hún hjálpar.

Síðar um nóttina barst tilkynning til lögreglu um mann sem hefði verið hent út úr bifreið með áverka á höfði, hugsanlega eftir kúbein. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild og reyndist höfuðkúpubrotinn, nefbrotinn og ristarbrotinn. Um var að ræða sama mann og varð eftir í leigubifreiðinni.

Sá greindi frá því að mennirnir þrír hefðu sett yfir hann hettu, ekið honum á einhvern ókunnugan stað þar sem þeir hafi farið út úr bifreiðinni og inn í hús. Þar hafi þeir síðan veitt honum enn frekari áverka og í kjölfarið ekið honum á tiltekinn stað í Hafnarfirði þar sem honum var kastað út.

Mennirnir þrír fundust síðar um nóttina á áðurnefndri glæsikerru og voru snarlega handteknir. Leigubifreiðin fannst fyrir utan hjá einum þeirra, og á henni hafi mátt sjá blóð. Lögregla eigi eftir að finna hvar umrætt húsnæði sé en allt kapp sé lagt í að finna það sem fyrst þar sem hugsanlegt sé að þar megi finna áhaldið sem maðurinn segist hafa verið laminn með, talið er að það hafi verið kúbein.

Það er mat lögreglustjóra að um mjög grófa og tilefnislausa atlögu að lífi og heilbrigði mannsins sé að ræða, og að hún hafi verið algjörlega tilefnislaus. Þá kemur fram að maðurinn hafi ekki viljað tjá sig um sakargiftir við skýrslutöku hjá lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert