Kaup á flugmiðum ekki ríkisaðstoð

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í dag að þeirri niðurstöðu að kaup íslenskra stjórnvalda á flugmiðum á grundvelli rammasamninga við Icelandair fælu ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins. ESA hefur haft málið til athugunar í kjölfar kvörtunar sem barst stofnuninni síðla árs 2012. 

Stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins keyptu á grundvelli rammasamningana flugmiða af Icelandair þegar þess var þörf. Flugmiðarnir voru keyptir á sömu kjörum og með sömu skilmálum og buðust öðrum stórum viðskiptavininum Icelandair. Ekki verður annað séð en að rammasamningar íslenska ríkisins við Icelandair hafi verið eðlilegir viðskiptagerningar á markaðsforsendum sem fólu ekki í sér ívilnun til handa Icelandair. Þar af leiðandi fólu umræddir samningar ekki í sér ríkisaðstoð.

ESA komst einnig að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að rannsaka meinta mismunun Flugmálastjórnar Íslands við afgreiðslu á flugréttindum enda hefði samgönguráðuneytið á sínum tíma fellt ákvörðun Flugmálastjórnar úr gildi og Samkeppniseftirlitið hefði auk þess tekið á málinu með fullnægjandi hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert