Eingöngu á Íslandi er Morrinn karlkyns

Meðlimir múmínfjölskydlunnar eru sérlega fjölbreyttir og áhugaverðir og hafa glatt …
Meðlimir múmínfjölskydlunnar eru sérlega fjölbreyttir og áhugaverðir og hafa glatt marga.

Þetta var rosalega gaman. Á þessari þriggja daga ráðstefnu var fjallað um líf og list Tove, um hana sem myndlistarmann og um bókmenntirnar hennar. Tove gerði svo margt fleira en skrifa og teikna Múmínálfa, hún skrifaði og myndskreytti ótal margt annað. Hún leit fyrst og fremst á sig sem myndlistarmann sem skrifaði, því sögurnar hennar spruttu út frá myndlistinni. Hún gerði líka teiknimyndasögur um Múmínálfana sem við Íslendingar þekkjum ekki mikið,“ segir Hildur Ýr Ísberg sem fyrr á þessu ári flutti erindi á ráðstefnu í Varsjá sem haldin var í tilefni af því að hundrað ár eru frá fæðingu finnska rithöfundarins og myndlistarmannsins Tove Jansson.

Hringur fantasíuferðasagna

Erindi Hildar á ráðstefnunni var um bókina Eyjan hans múmínpabba. „Ég fjallaði um kynhlutverk Morrans og Míu litlu í samskiptum þeirra við Múmínsnáðann í sögunni,“ segir Hildur sem nú vinnur að doktorsverkefni sínu í íslenskum bókmenntum um barnabækur og fantasíur.

„Múmínfjölskyldan fer í ferðalag í þessari bók, þau enda á eyju sem Múmínpabbi segist eiga og hann ætlar að verða vitavörður þar. Ég lagði út frá byggingu bókarinnar sem er ófullkominn hringur, hringur sem lokast ekki, af því þau fara aldrei heim af eyjunni. Í fantasíuferðasögum er hringurinn mjög mikilvægur, því þegar fólk snýr aftur til raunveruleikans eftir ferðalag í fantasíunni þarf lesandinn að túlka söguna upp á nýtt. En í Eyjunni hans Múmínpabba þá gerist þetta ekki, af því þau snúa ekki heim og þetta endar mjög óljóst. Tove neitar að láta endurtúlka söguna og lesandinn situr því eftir í fantasíunni.“

Manndómsvígsla snáðans

Hildur segist í erindi sínu hafa túlkað kynhlutverk Morrans og Míu litlu út frá kenningum Jacques Lacans, eins af arftökum Freuds. 

„Morrinn stendur fyrir hið hráa og raunverulega, þetta sem fær hárin á okkur til að rísa þegar við horfum á hryllingsmyndir. Tove skrifaði Morrann sem kvenkyns persónu, en af einhverjum ástæðum er hann karlkyns í íslenskri þýðingu bókarinnar, kannski hefur þýðandanum fundist Morran, eins og hún heitir á sænsku, vera of hræðileg til að vera kvenkyns. Hún Morran stendur alltaf rétt utan við hringinn, en Múmínfjölskyldan er alltaf innan hringsins: þau eru í vitanum sem er hringlaga, á eyjunni sem er hringlaga, inni í ljósinu frá lampanum sem er hringlaga. En Morran sækir í ljósið og hlýjuna og Múmínsnáðinn stelst niður að strönd til að gefa henni ljós. Í uppgjörinu þeirra á milli, þegar hann kemur til hennar og lætur hana vita að hann eigi ekki meira ljós til að gefa henni, verður hún samt svo glöð að sjá hann. Þá áttar hún sig á því að það er hann sem hún vill sjá, en ekki ljósið. Eftir þetta kemst allt í samt lag og Morrunni hlýnar. Þetta tel ég vera hluta af manndómsvígslu Múmínsnáðans.“

Mía litla drepur Maura

Hildur segir að Mía litla tilheyri ekki hinum samfélagslegu normum í sögunni. „Hún segir það sem henni finnst, hvort sem það passar eða ekki. Hún segir ýmislegt sem Múmínsnáðinn vill kannski segja, en gerir ekki, af því að hann kann sig. Mía litla hleypur inn og út úr hringnum, hún er aldrei alveg heima með Múmínfjölskyldunni en samt er hún alltaf hjá þeim. Mía er miklu djarfari en Múmínsnáðinn, hún drepur til dæmis maura sem hann vill losna við á leynistaðnum sínum, og þegar hann verður reiður yfir því segir hún að hann sé góður í að blekkja sjálfan sig, hann hafi vitað að hún myndi drepa þá.“

Hildur fjallaði um kynhlutverk Múmínsnáðans sem drengs og karlmanns og kynhlutverk Morrunnar og Míu sem kvenna í samskiptum við hann. „Það er engin tilviljun að þær eru kvenkyns, þetta samspil á milli hans og þessara kvenpersóna verður til þess að hann uppgötvar sig á mörkum barns og fullorðins. Morran stendur fyrir það að verða fullorðin, hún getur staðið fyrir kynlíf, hrylling og ýmislegt fleira. Hún tjáir sig á mjög frumstæðan hátt, gólar en talar ekki. Hún er algerlega fyrir utan allt sem heitir siðvitund eða samfélag.“

Sumar múmínbækurnar varla við hæfi barna

Hildur hefur alla tíð haft mikinn áhuga á barnabókum, bæði þegar hún var barn og eftir að hún varð fullorðin. „Ég hef lengi safnað gömlum barnabókum og að sjálfsögðu las ég bækurnar um Múmínálfana þegar ég var barn, en sumar þeirra eru samt varla við hæfi barna, bæði Halastjarnan og Eyjan hans Múmínpabba eru mjög dimmar bækur. En Örlaganóttin og Pípuhattur galdrakarlsins eru aftur á móti bjartari, ærslafyllri og fyndnari.“

Hildur Ýr Ísberg.
Hildur Ýr Ísberg.
Tove Jansson hefur skapað merkilegan heim með Múmínálfunum.
Tove Jansson hefur skapað merkilegan heim með Múmínálfunum.
Múmínsnáðinn færir Morranum ljós, en vináttan er mest um verð.
Múmínsnáðinn færir Morranum ljós, en vináttan er mest um verð.
Hér er Tove Jansson ung að árum.
Hér er Tove Jansson ung að árum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert