Mikil samstaða um nýtt millidómstig

Hæstiréttur Íslands mun taka miklum breytingum samkvæmt tillögum undirbúningsnefndarinnar.
Hæstiréttur Íslands mun taka miklum breytingum samkvæmt tillögum undirbúningsnefndarinnar. Brynjar Gauti

Vinna undirbúningsnefndar um millidómstig á Íslandi er nú á lokastigi. Að sögn Kristínar Edwald, formanns nefndarinnar, mun nefndin skila af sér skýrslu til innanríkisráðherra í mánuðinum. Í kjölfarið er stefnt að því að leggja fram fyrir þing frumvarp um millidómstig. 

Í skýrslu nefndarinnar, sem skipuð var í ágústmánuði í fyrra, má búast við breytingum á Hæstarétti, en dómurum við réttinn mun fækka og þeir munu starfa í einni deild þegar nýtt millidómstig kemst á laggirnar. Í dag eru níu skipaðir dómarar við réttinn. Hins vegar verður engin breyting á héraðsdómstólum samkvæmt tillögunum.

Hæstiréttur mun veita áfrýjunarleyfi fyrir dómsmál og ákveða þannig sjálfur hvaða mál hann tekur til skoðunar. Þetta gildir jafnt um mál sem fara fyrir héraðsdómi sem og hinu nýja millidómstigi. Áfrýjunarleyfi verður í öllum málum þar sem ekki þarf að endurtaka munnlega sönnunarfærslu og uppfylla núverandi skilyrði áfrýjunarleyfis.

Kristín segir að hún hafi fundið fyrir mikilli samstöðu meðal lögfræðinga um nýtt millidómstig, en hún telur vera mikla þörf á slíkum dómstól.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skipaði undirbúningsnefndina í fyrrahaust í kjölfar umræðna um álag á dómskerfinu. Slík umræða er ekki ný af nálinni, en á fundi lögfræðinga-, lögmanna-, dómara- og ákærandafélagsins í aðdraganda skipun nefndarinnar kom fram mikil samstaða um nýtt dómstig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert