Segja Strætó bs beita „reiknikúnstum“

Strætisvagn í miðbænum.
Strætisvagn í miðbænum. Ómar Óskarsson

Stjórn Yutong Eurobus ehf mun óska eftir að síðasta vagnútboð á vegum Strætó bs. verði rannsakað. Sérstaklega verði kannað hvort „annarlegar ástæður réðu vali á verktaka og hvort útboðið hafi í reynd verið sýndarútboð ætlað fyrirfram ákveðnum bjóðanda eða bjóðendum.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

 Ástæða óskar um rannsókn er sú að við opnun tilboða hjá Strætó bs þann 23. janúar reyndist tilboð í rafmagnsvagna vera lægst miðað við uppgefnar forsendur í útboðsgögnum, en þar var lagður til grundvallar svokallaður líftímakostnaður eða raunkostnaður Strætó bs. af kaupum og rekstri vagna til 10 ára.  „Tilboð Yutong Eurobus ehf miðaðist við þau lög og reglur sem í landinu gilda þess efnis að Strætó bs. fær 2/3 hluta greidds VSK endurgreiddan frá íslenska ríkinu. Innkaupsverð rafknúinna strætisvagna er talsvert hærra en dísilvagna og þessi endurgreiðsla gerði það að verkum að  rafmagnsvagnarnir urðu hagstæðasti valkosturinn,“ segir í tilkynningu Yutong Eurobus. Telur fyrirtækið að stjórnendur Strætó hafi litið fram hjá reglunum og reiknað þannig fullan virðisaukaskatt ofan á tilboð fyrirtækisins.

„Með þessum reiknikúnstum tókst að láta hefðbundna dísilvagna líta út fyrir að vera hagkvæmari kost og ýta þar með umhverfisvænum rafmagnsvögnum út af borðinu. Þetta eru gagnrýniverð vinnubrögð í meira lagi ekki hvað síst þar sem útboðsgögn Strætó bs gerðu beinlínis ráð fyrir að tekið skyldi tillit til núgildandi reglugerða um endurgreiðslu virðisaukaskatts á nýjum vögnum.“

Stjórnarformaður Yutong Eurobus ehf hefur einnig sent framkvæmdastjóra Strætó bs. opið bréf vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert