Allt gekk áfram sinn vanagang þrátt fyrir slysið

Terra Mítica-skemmtigarðurinn var opnaður árið 2000.
Terra Mítica-skemmtigarðurinn var opnaður árið 2000. GoToBenidorm

Guðmundur Ómarsson var staddur ásamt fjölskyldu sinni í skemmtigarðinum Terra Mítica þegar 18 ára Íslendingur, Andri Freyr Sveinsson, lést af slysförum í einu tækja garðsins. Guðmundur hafði gengið garðinn á enda til þess að fara með 12 ára son sinn í rússíbana, þegar þeir feðgar ákváðu að fá sér að borða áður en farið yrði í tækin. 

„Við ákváðum í rauninni að fara og fá okkur að borða fyrir einhverja tilviljun og bíða aðeins með að fara í rússíbanana. Á meðan gerist þetta,“ segir Guðmundur. „Þegar við komum út sjáum við sjúkrabíl og sjúkraliða sem standa yfir manninum, en við höfðum áður ekki orðið varir við hvorki sjúkrabílinn, sírenur eða neitt,“ bætir hann við.

Feðgarnir gengu að rússíbananum Inferno, þeim sama og slysið varð í, en sáu að honum hafði verið lokað. „Við héldum að honum væri bara lokað tímabundið og ætluðum því að bíða en þá sagði starfsfólk að tækið væri eitthvað bilað. Þau sögðu okkur ekki hvað hafði skeð og í raun gekk allt sinn vanagang áfram,“ segir Guðmundur.

Fréttir af banaslysinu bárust hratt á Spáni

Það var ekki fyrr en út í leigubíl var komið að fjölskyldan áttaði sig á því hvað hafði gerst þegar leigubílstjórinn sagði þeim fréttirnar. „Þá var þetta greinilega komið í fjölmiðla hér úti. Bílstjórinn sagði strax við okkur að þetta hafi verið 18 ára Íslendingur svo að þær fréttir bárust strax og voru réttar. Þá fengum við öll hálfgert sjokk,“ segir Guðmundur.

Honum finnst skemmtigarðurinn sýna fjölskyldunni mikið virðingarleysi með því að halda garðinum opnum. Talsvert af fólki var í garðinum þegar slysið varð að sögn Guðmundar. Hann hafði keypt miða á netinu sem giltu í tvo daga og þegar fjölskyldan kom aftur daginn eftir hafði mikið fækkað. „Þá var rosalega lítið af fólki svo að þetta hafði greinilega mikil áhrif. Umræddur rússíbani var eina tækið sem var lokað,“ segir Guðmundur, en segir þó að garðurinn hafi verið í góðu ásigkomulagi að öðru leyti.

„Maður er alltaf hræddur í þessum tækjum og hugsar með sér hvort að þetta sé ekki 100% öruggt. En ég fer ekki aftur í svona tæki eftir þetta. Það er bara þannig,“ segir Guðmundur.

Sjá fyrri frétt­ir mbl.is:

Fjölskyldan gaf skýrslu í morgun

Pilt­ur­inn sem lést á Spáni

„Fyr­ir mér var þetta versta tækið“

Sams­kon­ar rúss­í­bön­um lokað

„Fólk er skelkað yfir þessu“

Pilt­ur­inn sem lést var ís­lensk­ur

Íslensk­ur pilt­ur sagður lát­inn

Rússíbananum Inferno var lokað eftir banaslysið, en að öðru leyti …
Rússíbananum Inferno var lokað eftir banaslysið, en að öðru leyti hélst starfsemi garðsins óbreytt. OldJJMan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert