Augljóst innbrot en engar bætur

Júlía Hvanndal
Júlía Hvanndal Mynd/Einkasafn

„Glugginn minn, sem var lokaður og læstur, hafði verið spenntur upp og tölvunni stolið,“ segir Júlía Hvanndal, sem varð fyrir miklu tjóni við innbrot en tryggingarfélagið neitar að greiða henni, með þeim rökum að sannanir skorti. Í lögregluskýrslu segir þó að ummerki um innbrot séu ótvíræð.

„Ég hringdi strax á lögregluna og þeir komu og sáu að ég hafði verið rænd og það var brotist inn um lokaðan glugga. Síðan fer skýrslan til tryggingarfélagsins. Svo fékk ég svar frá þeim þar sem þeir segjast ekki sjá nein ummerki um að glugginn hafi verið spenntur upp. Þetta segja þeir þrátt fyrir að lögregla segi í skýrslunni að glugginn hafi verið brotinn upp,“ segir Júlía. 

„Svo fæ ég eitthvað skjal frá þeim þar sem segir að ég hefði átt að krækja einhverjum krækjum á glugganum, en það eru engir krókar á glugganum mínum. Þetta er bara venjulegur gluggi þótt hann sé orðinn gamall og lúinn.“

Skildi eftir miða og gaf köttunum nammi

Tölvu Júlíu var stolið í innbrotinu, ásamt hörðum diski, en hann hafði að geyma öll verkefni hennar þar sem hún starfar sem sjálfstæður hönnuður. „ Ég er sjálfstætt starfandi hönnuður og treysti því alfarið á mig sjálfa. Í þessu innbroti var ekki aðeins rótað til á heimili mínu, tölvunni minni rænt og hörðum disk sem innihélt flest mín verkefni heldur var lifibrauð mitt og heimili tekið frá mér. Verkefnin mín og tekjur eru í biðstöðu og ég er hrædd og óörugg á mínu eigin heimili,“ segir Júlía. 

Ég loka alltaf þarna á nóttunni og er með kettina þarna inni. Þessi ræningi gaf köttunum mínum allt kisunammið, og það sýnir enn fremur að ég hafi verið með lokaðan glugga, því þá haldast kettirnir inni. Annars fara þeir út. En núna er málið komið á fullt og ég hef haft samband við lögfræðing,“ segir Júlía. 

Þjófurinn var afar bíræfinn, en auk þess að gefa köttum hennar að borða, skildi hann eftir miða þar sem hann „baðst afsökunar“ á að ræna tölvunni. 

Þjófurinn skildi eftir miða eftir innbrotið.
Þjófurinn skildi eftir miða eftir innbrotið. Mynd/Júlía Hvanndal
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert