Eins og fjallið hefði sprungið

Stórgrýti féll með skriðunum á veginn í Hvalvík á Ströndum …
Stórgrýti féll með skriðunum á veginn í Hvalvík á Ströndum í dag. Ljósmynd/Jón G. Guðjónsson

Stærðarinnar aurskriða féll úr Árnesfjalli á Ströndum um miðjan dag í dag. Björn Torfason bóndi á Melum segist hafa séð steina byrja að hrynja úr fjallinu fyrir hádegi, svo á öðrum tímanum hafi allt farið af stað svo engu var líkara en fjallið hefði hreinlega sprungið.

Haft er eftir Birni á vefnum Litlahjalla, sem segir fréttir úr Árneshreppi, að sex kindur hafi verið í grasgeira neðan við hlíðina þar sem skriðurnar féllu, en ekkert hafi sést til þeirra síðan.

Aurskriðan stóra féll norðanmegin úr fjallinu niður í svonefnda Hvalvík og náði niður á  veg, en ekki í sjó fram. Talsverð skál er í fjallinu, sem heimamenn telja að gæti hafa verið full af vatni eftir rigningarnar undanfarna daga, en nú opnast og hleypt skriðunum af stað.

Steinar velta enn fram og niður og drunur heyrast frá fjallinu, að því er fram kemur á Litlahjalla. Vegurinn í Hvalvík var lokaður stóran hlut dags eða þar til Vegagerðin hreinsaði skriðuna af honum um sexleytið í dag.

Bændur á Melum segja mikla landslagsbreytingu hafa orðið eftir þessi skriðuföll úr Árnesfjallinu. Þegar skoðað var með sjónauka upp skriðurnar í fjallinu nú síðdegis sáust greinilega klakastykki í grjótinu og er því talið hugsanlegt að skriðuföllin hafi byrjað þegar klaki sprengdi björgin fram.

Stór spilda fór efst úr fjallinu og náði aurskriðan niður …
Stór spilda fór efst úr fjallinu og náði aurskriðan niður yfir veg, en þó ekki í sjó fram. Ljósmynd/Jón G. Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert