Haldi í umbæturnar frá 2009

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Halda ætti í þær breytingar sem gerðar voru á lögum um Seðlabankann árið 2009 við fyrirhugaða endurskoðun laganna, þar á meðal ákvæði um val á æðstu yfirmönnum hans. Þetta kemur fram í fjórðu eftirfylgniskýrslu framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um Ísland.

Sérstaklega er tekið fram í skýrslunni að framkvæmdastjórn AGS hvetji íslensk stjórnvöld til þess að viðhalda fjármálalegri heilsu, sjálfstæði og ábyrgð Seðlabankans til að tryggja trúverðugleika hans. Við fyrirhugaða endurskoðun á lögum um bankann ætti að halda í lykilþætti þeirra umbóta sem gerðar voru á lagaumhverfi hans árið 2009. Þar á meðal er sérstök peningamálastefnunefnd, ströng skilyrði og umgjörð utan um val á æðstu yfirmönnum bankans og gegnsæ ákvarðanataka.

Í skýrslunni kemur fram að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hafi verið sammála hvatningarorðum AGS og sagt almenna samstöðu um að viðhalda sjálfstæði bankans og þeim umbótum sem gerðar voru á lagaumhverfi hans eftir hrunið.

Fjórða eftirfylgnisskýrsla framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert