Íslendingar eru enn hamingjusamir

Íslendingar eru hamingjusamir.
Íslendingar eru hamingjusamir. Eggert Jóhannesson

Íslendingar eru í öðru sæti hamingjusömustu þjóða Evrópu, á eftir Dönum. Þetta kom fram á Evrópuráðstefnu um jákvæða sálfræði sem haldin var í Amsterdam fyrr í mánuðinum. Um er að ræða nýjar tölur úr rannsókninni European Social Survey 2012–2013 sem sýndi að hamingjustig Íslendinga hefði aftur náð yfir 8 á skalanum 0–10.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis, flutti á ráðstefnunni lykilerindi um efnahagskreppu, vellíðan og sjálfbærni ásamt tölfræðingnum Nic Marks. Á vefsvæði landlæknis segir að Dóra Guðrún hafi í erindi sínu fjallað um mikilvægi þess að stjórnvöld noti ekki einungis hagfræðilega mælikvarða til að meta árangur stjórnvaldsaðgerða heldur meti jafnframt hamingju og vellíðan þegna sinna og vinni markvisst að því að stuðla að betri líðan og auknum lífsgæðum.

„Löngum hefur verið talið að aukinn hagvöxtur leiði ósjálfrátt til bættrar líðanar en svo er ekki raunin. Aukinn hagvöxtur getur komið vegna margvíslegra þátta sem hafa ekki endilega góð áhrif á samfélagið og því er mikilvægt að nota aðra mælikvarða samhliða eins og hamingju og vellíðan,“ segir á vefsvæði landlæknis.

Dóra Guðrún fór einnig yfir mælingar á hamingju og líðan Íslendinga fyrir og eftir bankahrun úr rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga sem sýnir að hamingja 40% fullorðinna einstaklinga stóð í stað milli 2007 og 2009 en fór hækkandi hjá 30% og lækkandi hjá 30%.

Einnig kynnti hún niðurstöður úr rannsókninni Ungt fólk sem sýnir að hlutfall unglinga sem telja sig hamingjusama vex frá 2000 til 2010 samhliða auknum samverustundum með foreldrum.

Að lokum kynnti hún í fyrsta sinn nýjar tölur úr rannsókninni European Social Survey 2012-2013 sem sýndi að hamingjustig Íslendinga hefði aftur náð yfir 8 (á skalanum 0–10) og í samanburði 29 þjóða mældust Íslendingar í öðru sæti hamingjusömustu þjóða Evrópu á eftir Dönum.

Ráðstefnan var haldin í samvinnu við Evrópusamtök um jákvæða sálfræði  en á lokadegi ráðstefnunnar var Dóra Guðrún kosin forseti samtakanna og mun hún beita sér fyrir því að efla rannsóknir á jákvæðum eiginleikum mannsins og tengja gæðarannsóknir áfram við stefnumótun stjórnvalda og einnig við starf á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert