Leggja til 5 daga lundaveiði

Lundastofninn ku vera í blússandi vexti fyrir norðan, en ástand …
Lundastofninn ku vera í blússandi vexti fyrir norðan, en ástand stofnsins er slæmt syðra og sérstaklega í Vestmannaeyjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lagt var til á fundi umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyjabæjar í dag að lundaveiði í Vestmannaeyjum verði leyfð í 5 daga í ágúst, með svipuðum hætti og gert var í fyrra. Vefurinn eyjar.net greinir frá þessu.

Vegna bágs ástands lundastofnsins í Eyjum var veiði bönnuð með öllu árin 2011 og 2012. Í fyrra var heimilt að veiða í 5 daga, frá 19. til 23. júlí. Hefðbundið veiðitímabil lunda var áður 55 dagar.

Í fundargerð kemur fram að umhverfis- og skipulagsráð hvetji til þess að bjargveiðimenn hagi veiðum þannig að lundinn njóti ætíð vafans. Ráðið leggur einnig þær skyldur á bjargveiðimenn að ef aðstæður leyfi, og þeir fari á annað borð til veiða, skuli þeir skila öllum hausum af veiddum fugli til Náttúrustofu Suðurlands til rannsókna.

Tillagana um veiðileyfið er rökstudd með hliðsjón af þeim mikilvæga menningarlega þætti sem lundaveiði er í sögu Vestmannaeyja. Atli Sigurðsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Suðurlands sagði hinsvegar í samtali við Morgunblaðið í vikunni sem leið að vart sé forsvaranlegt að lundi verði veiddur nokkurs staðar á landinu í ár.

Sjá fyrri frétt mbl.is: Lundaveiðar vart forsvaranlegar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert