Njóta náttúrunnar á hlaupum

Erlendir þátttakendur í Laugavegshlaupinu sem fer fram á laugardaginn eru 141 talsins en alls eru hlaupararnir 357 og hafa þeir aldrei verið fleiri. Zachary Ekondo er einn þeirra en hann kemur frá New York og ætlar að njóta náttúrunnar í hlaupinu sem er eitt elsta utanvegahlaup í Evrópu.

Hlaupararnir sóttu gögn sín fyrir hlaupið í Laugardalshöllina í dag og mbl.is var á staðnum og ræddi við Zachary og Birgi Sævarsson en hann sigraði í hlaupinu í fyrra og veitti góð ráð í dag.

Leiðrétting 11.07.2014: Birgir lenti í fyrsta sæti í sínum aldursflokki í Laugavegshlaupinu 2013 en í fimmta sæti yfir heildina. Örvar Steingrímsson sigraði í karlaflokki í fyrra. 

Berjast við náttúruöflin

Íslenskir þátttakendur eru 216 talsins og frá öðrum löndum 141. Fjölmennastir eru Bandaríkjamenn eða 29, þá Þjóðverjar sem eru 17 talsins og þriðja fjölmennasta þjóðin eru Kanadamenn sem eru 16 skráðir til þátttöku. Þátttakendur í hlaupinu eru af 29 mismunandi þjóðernum.

Hlaupið hefst í Landmannlaugum og lýkur í Húsadal í Þórsmörk. Eins og margir vita er Laugavegurinn ein fjölfarnasta og vinsælasta gönguleiðin um íslensk öræfi. Venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en met hlauptími á þessari 55 km leið í Laugavegshlaupi er 4 klukkustundir og 19 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir í kvennaflokki.

Hlaupið hefst við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum, laugardaginn 12.júlí 2014 klukkan 9.00 og lýkur við skála Ferðafélagsins í Húsadal í Þórsmörk. Tímamörk eru í hlaupinu og þurfa hlauparar að vera komnir í Álftavatn (22 km) á innan við 4 klst og í Emstrur (34 km) á innan við 6 klst. Það er því aðeins fyrir vel æfða  hlaupara að taka þátt í þessari miklu þolraun.

Hlauparar þurfa ekki aðeins að berjast við kílómetrana 55 og þá miklu hækkun sem er á leiðinni heldur einnig náttúruöflin. Búast má við öllu af íslenska sumarveðrinu sem hefur verið kalt í ár eins og flestir hafa tekið eftir. Vitað er að það er mikill snjór í Hrafntinnuskeri og nágrenni og að árnar sem fara þarf yfir geta verið vatnsmiklar eftir rigningu og leysingar síðustu daga. 

Margir hlaupa Laugavegshlaupið ár eftir ár. Í 18 ára sögu hlaupsins hafa níu einstaklingar lokið 10 eða fleiri hlaupum og um 70 hafa lokið 5 eða fleiri hlaupum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert