Prjónar slaufur allan liðlangan daginn

Elli er flinkur að prjóna og finnst það líka skemmtilegt. …
Elli er flinkur að prjóna og finnst það líka skemmtilegt. Hann hefur nóg að gera í prjónaskapnum.

Hann situr utan við Eymundsson á Akureyri á góðviðrisdögum og hjá honum liggur gjarnan tíkin Bella og fylgist með þegar hann prjónar slaufur í öllum regnbogans litum. Elli er fimmtán ára strákur sem tók málin í sínar hendur þegar hann fékk enga vinnu í sumar og selur nú slaufurnar sínar líkt og heitar lummur.

Ég fékk enga vinnu í sumar en mig langaði til að gera eitthvað og þá datt mér þetta í hug, af því að ég kann að prjóna og finnst það gaman,“ segir Elías Bergmann Valgeirsson, úrræðagóður fimmtán ára strákur norður á Akureyri sem tók málin í sínar hendur og situr dagana langa í sumar og prjónar slaufur.

Slaufurnar býður hann til kaups þeim sem eiga leið um stræti Akureyrar, en hann hefur fengið að vera fyrir utan Eymundsson og bjóða handverk sitt til sölu. „Ég þurfti að prófa mig þó nokkuð áfram áður en ég náði að gera slaufurnar eins og þær eru núna, ég þróaði þetta þar til ég varð ánægður,“ segir Elías og bætir við að mamma hans, Sara Elíasdóttir, og ömmurnar báðar, Ásta og Drífa, hafi vakið áhuga hans á prjónaskap. „Þær kenndu mér að prjóna þegar ég var níu ára.“

Slaufurnar hans Elíasar eru sannarlega fjölnota, þær má nota sem hefðbundnar þverslaufur á skyrtum, sem skraut í hár og einnig sem skraut í hundaólar. „Ég labba oft með tíkina okkar, hana Bellu, með mér í bæinn þegar ég fer að selja slaufurnar, til að sýna fólki hvað þetta kemur vel út,“ segir Elías og bætir við að slaufurnar megi bæði nota sem skraut á hárteygjum eða sem skraut á hárspöngum eða hárspennum.

Útlendingarnir hrifnir

Elías segist afar þakklátur að starfsfólkið í verslun Eymundsson hafi leyft honum að vera þar fyrir utan til að bjóða slaufurnar til sölu. 

Þarna er mikil umferð af fólki á góðviðrisdögum, bæði heimamönnum og ferðafólki, enda er kaffihús í Eymundsson bæði inni og fyrir utan og margir tylla sér niður. En ég er bara þarna þegar veðrið er gott, enda ekki hægt að vera með slaufurnar úti í rigningu. Á slíkum dögum sit ég heima og prjóna. Það er nóg að gera, ég sit við öllum stundum og prjóna, rétt gef mér tíma til að borða,“ segir Elías og bætir við að hann nái að prjóna fimm til sex slaufur á dag ef hann geri ekkert annað.

Hann segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við slaufunum, fólk staldri við hjá honum og hrósi honum fyrir framtakið. „Salan hefur líka gengið vel, ég sel alltaf eitthvað á hverjum degi sem ég er við Eymundsson. Útlendingarnir eru mjög hrifnir af þessu og hafa keypt mikið af mér. Konur hafa líka verið mjög duglegar að kaupa af mér.“

Fólk leggur inn pantanir

Elías prjónar slaufurnar bæði úr ullargarni og akrílgarni. „Mér finnst ullin henta betur í þetta, af því að hún er stífari og slaufurnar haldast betur í laginu, en það er vandasamara að prjóna úr ullinni, hún fer auðveldlega í sundur þegar ég er að prjóna. Mér finnst flott og mjög íslenskt að bera slaufu úr íslenskri ull, ég hef þær í sauðalitunum en akrílslaufurnar eru í skærum litum.“ Elías setti nýlega upp Facebook-síðu sem heitir Slaufusmiðjan, en þar er hægt að sjá alla liti slaufanna og fylgjast með Elíasi.

„Eftir að ég setti upp síðuna hafa verið lagðar inn pantanir hjá mér fyrir slaufum. Það er brjálað að gera hjá mér, og það er gott.“

Ullarslaufur í sauðalitum eru hlýlegar.
Ullarslaufur í sauðalitum eru hlýlegar.
Elli utan við Eymundsson og Bella skartar slaufu í hundaól.
Elli utan við Eymundsson og Bella skartar slaufu í hundaól.
Emelía systir og Snædís frænka með slaufur frá Ella.
Emelía systir og Snædís frænka með slaufur frá Ella.
Litríkar regnbogaslaufur frá Ella.
Litríkar regnbogaslaufur frá Ella.
Elli kann vel við sig utan við Eymundsson þar sem …
Elli kann vel við sig utan við Eymundsson þar sem er kaffihús.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert