Spáir ríkisstjórninni fylgishruni

Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson Ragnar Axelsson

Ef ekki verður efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í einu eða öðru formi um afstöðu Íslendinga til ESB munu ríkisstjórnarflokkarnir stórtapa í þingkosningunum 2017. Þetta er mat Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins.

Styrmir skrifar á vefinn sinn, Evrópuvaktina, að ef ekki verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið muni fara eins fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í næstu kosningum og fór fyrir Brasilíumönnum í undanúrslitum HM fyrir nokkrum dögum, þar sem hinir gulklæddu töpuðu 1:7 fyrir Þjóðverjum.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 25,1% í þjóðarpúlsi Gallup í apríl en mældist til samanburðar með 25% fylgi í Gallup-könnun í desember 2008, nokkrum vikum eftir hrunið.

Fylgi flokksins mældist á sama stað 39,3% í maí 2012. 

Misheppnuð tilraun ríkisstjórnarinnar

Styrmir skrifar orðrétt:

„Allar ríkisstjórnir hafa tilhneigingu til að fresta erfiðum ákvörðunum eins lengi og kostur er.

Núverandi ríkisstjórn vill augljóslega fresta því eins lengi og hún getur að taka ákvörðun um afturköllun aðildarumsóknar Íslands að ESB eftir misheppnaða tilraun til þess í vetur.

Eitt ætti þó að vera orðið þingflokkum beggja stjórnarflokkanna ljóst.

Þeir geta ekki gengið til þingkosninga að þremur árum liðnum án þess að áður fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla í einu eða öðru formi um afstöðu Íslendinga til ESB.

Efni þeir ekki til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu á yfirstandandi kjörtímabili mun fara fyrir þeim eins og fór fyrir Brasilíu í umtöluðum fótboltaleik fyrir nokkrum dögum,“ skrifar Styrmir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert