Taðreyktur bjór til Bandaríkjanna

Mynd/Borg Brugghús

„Við leyfðum einum bjórinnflytjenda að smakka taðreykta bjórprufu og hann missti sig alveg. Þar með ákváðum við að hefja framleiðslu á taðreyktum bjór,“ segir Sturlaugur Jón Björnsson, einn bruggmeistara Borg brugghúss, sem mun á næstunni hefja útflutning á Fenri, taðreyktum bjór, til Bandaríkjanna. 

„Það hefur verið draumur minn í mörg ár, frá því áður en ég varð bruggmeistari, að gera taðreyktan bjór. Mér finnst reyktur matur góður og ég hafði kynnst reyktum bjór. Þá fór mig að langa að gera taðreyktan bjór,“ segir Sturlaugur. Eftir að hann hóf störf hjá Borg Brugghúsi fór hann að þróa bjórinn sem nú er kominn á markað. 

„Svo lengi sem það er bjór í þessu“

Að mörgu þarf að hugsa þegar bjór er seldur á Bandaríkjamarkað. Að sögn Sturlaugs eru það aðallega innihaldslýsingarnar sem verða að vera réttar. „Það er heillmikill hausverkur að fá samþykkta miða af FDA (Food and drug administration).“ Hann býst samt ekki við að eftirlitsaðilar muni gera athugasemd við bjórinn taðreykta. “Svo lengi sem miðarnir eru réttir og það er bjór í flöskunum þá verður þetta í lagi.“

Að sögn Sturlaugs hefur bjórinn fengið blendnar viðtökur. „Annað hvort segist fólk hata bragðið, eða þá að það segist aldrei hafa bragðað aðra eins snilld. Þetta er í raun léttur IPA bjór með sítruslegt og ferskt bragð og lykt frá humlunum. Síðan kemur svolítið þyngri, taðreyktur fílingur í þetta en þetta gengur allt saman upp.“

Nóg er framundan hjá Borg brugghúsi en í lok ágúst kemur bjórinn Ástríkur á markað á ný, en það er bjór sem framleiddur er sem samstöðubjór í tilefni af Gay Pride. Síðan er stefnt á að gefa út bjór í tilefni af Októberfest og svo jólabjór fyrir jólin. „Það er í raun aldrei neitt alveg niðurnelgt með bjórana fyrr en við fyllum tunnurnar,“ segir Sturlaugur að lokum.  

Sturlaugur Jón Björnsson
Sturlaugur Jón Björnsson Mynd/Borg brugghús
Mynd/Vínbúðin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert