Kunni ekki að keyra beinskiptan

Bandarísku ferðamennirnir fara af landi brott með jákvæða ímynd af …
Bandarísku ferðamennirnir fara af landi brott með jákvæða ímynd af íslenskum lögreglumönnum. Hér eru þeir Guðmundur Ingi Rúnarsson og Þórir Ingvarsson sem annast samfélagsmiðla lögreglunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír bandarískir ferðamenn komust í kast við lögreglu í miðborg Reykjavíkur um helgina. Það var þó af góðu einu og virðast þeir fyrir vikið fara af landi brott með afar góða ímynd af íslenskum lögreglumönnum, sem tóku sig til og kenndu þeim á kúplinguna á beinskiptum bíl.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segist svo frá, á Facebook-síðu sinni, að nokkrir lögreglumenn hafi verið í morgunkaffi í höfuðstöðvunum við Hverfisgötu síðustu helgi þegar þeir urðu varir við að ökumann í miklum vandræðum fyrir utan gluggann. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir komst hann aldrei út úr stæðinu, því það drapst alltaf á bílnum þegar hann tók af stað.

Ljóst var að hér þurfti að grípa inn í og snaraði einn lögreglumannanna sér yfir götuna og inn á bílastæðið til að kynna sér hverju þetta sætti. Ökumaðurinn, bandarískur ferðamaður ásamt tveimur samlöndum, reyndist vera í fínu standi og með öll tilskilin réttindi, en hann hafði hins vegar enga reynslu af því aka beinskiptum bíl og þar lá vandinn,“ hljóðar frásögn lögreglu.

Lögreglumaðurinn sýndi ökumanninum hvernig hann ætti að bera sig að og var ferðamaðurinn útskrifaður á mettíma úr þessum óvenjulega „ökuskóla”. Að því loknu var lögreglumanninum ekið aftur þessa stuttu leið að lögreglustöðinni og gekk allt eins og í sögu og ekki annað að sjá en ökumaðurinn hafði náð góðum tökum á því að aka beinskiptum bíl.

Að sögn lögreglu voru Bandaríkjamennirnir þrír himinlifandi með greiðvikni lögreglumanns, og höfðu á orði að í þeirra heimalandi biði lögreglan ekki upp á svo frábæra þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert