Ógleymanleg upplifun að fylgjast með

Bruninn í Skeifunni.
Bruninn í Skeifunni. Þórður Arnar Þórðarson

Framkvæmdastjóri Fannar segir að þrátt fyrir áfallið sem varð í brunanum síðastliðinn sunnudag hafi verið ákveðið að halda rekstri áfram og ráðstafanir gerðar sem gera Fönn kleift að þjónusta viðskiptavini þess áfram. Skrifstofa Fannar hafi til dæmis komið mun betur út úr brunanum en vonast var til.

Ari Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fannar, segir að á næstu dögum og vikum muni starfsfólk setja sig í samband við alla þá sem áttu þvott þegar bruninn varð. „Þrátt fyrir áfallið sem Fönn varð fyrir í brunanum þá erum við nú þegar byrjuð að þjónusta þann fjölda viðskiptavina sem við höfum skapað góð tengsl við á liðnum árum. Við höfum því ákveðið að halda ótrauð áfram að þvo og hreinsa og höfum þegar gert ráðstafanir sem gera okkur kleift að þjónusta okkar viðskiptavini áfram,“ segir Ari í tilkynningu.

Fönn hefur verið starfrækt frá árinu 1960 og því rótgróið fyrirtæki. „Á starfsárum okkar höfum við orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að þjónusta mikinn fjölda viðskiptavina, jafnt einstaklinga sem fyrirtæki.“

Þá þakkar Ari þeim slökkviliðsmönnum sem lögðu sjálfa sig í stórhættu við að bjarga því sem bjargað varð í stórbrunanum í Skeifunni um síðastliðna helgi.  „Sérstaklega var það mikil upplifun fyrir okkur að sjá í návígi hugrekkið sem slökkviliðsmenn sýndu  í viðureigninni við eldhafið.  Það gleymist aldrei.“ Jafnframt þakkar Ari björgunarsveitarfólki, lögreglunni og öllum þeim sem unnu á vettvangi. 

Ennfremur vill Fönn þakka öllum þeim sem sent hafa Fönn baráttu- og samúðarkveðjur undanfarna daga. „Þær hafa verið okkur mikils virði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert