Það er vott en mun það versna?

Einkennisklæðnaður sumarsins?
Einkennisklæðnaður sumarsins? mbl.is/Ómar

Ef miðað er við upphaf samfelldra mælinga í Reykjavík 1920 er júlí nú í sjöunda sæti yfir mestu úrkomuna. Rigni ekki dropa meir til næstu mánaðamóta yrðu júní og júlí 2014 saman í níunda sæti úrkomumagns. Það rignir hins vegar enn í Reykjavík og það sem af er júlí hefur hitinn mest farið í 15,4 stig.

Þetta segir Trausti Jónsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is. Úrkoman í Reykjavík fyrstu 10 daga júlímánaðar hefur mælst 37 mm sem er um 20 mm umfram meðallag. Þá er hitinn í Reykjavík í meðallagi miðað við meðatal áranna 1961 til 1990 en kaldara heldur en meðaltal síðustu 10 ára.

Trausti segir að meiriháttar umskipti séu ekki í vændum og því ljóst að ekkert lát er á þessu veðurfari. Aðspurður segir hann enga sérstaka skýringu liggja þarna að baki. „Þetta er bara eins og í lottóinu.“

70 mm upp í nýtt met

Á Facebooksíðu Hungurdiska fjallar Trausti um það hvar í magnröðinni úrkoma júlímánaðar í Reykjavík sé, þ.e. það sem af er þessum mánuði.  

„Miðað við upphaf samfelldra mælinga í Reykjavík 1920 er júlí nú í 7. sæti. Á fyrra úrkomumælingaskeiði (júlí 1885 til 1907) voru að auki þrír mánuðir sem fóru blautar af stað en þessi. Sé júní og júlíúrkoma (það sem af er) tekin saman er úrkoman nú hins vegar meiri en á öllum sömu tímabilum mælinganna,“ skrifar Trausti.

Hann bendir á að ekki sé þó mjög langt niður í júlí 1899 og 1887 - síðan sé talsvert bil niður í 1923.

„Ef ekki rigndi dropa meir - alveg til næstu mánaðarmóta yrðu júní og júlí 2014 saman í níunda sæti úrkomumagns - beggja mælitímabila í Reykjavík. Þannig að eftir þetta liggur leiðin bara upp stigann. Leiðin upp í fjórða sæti er mjög greið (aðeins vantar tæpa 8 mm til að því verði náð), en síðan þyngist nokkuð. Það eru um 30 mm upp í 1984 og 1923 - en frá deginum í dag og upp í nýtt met eru rétt rúmir 70 mm. Gamla metið er frá júní og júlí 1899. Í ágúst 1899 og 1984 bætti enn mikið í sumarregnið í ágúst - en 1923 gaf aðeins eftir,“ skrifar Trausti.

Veik von liðin hjá

Fram kemur á bloggsíðu Trausta að, framan af vikunni hafi verið veik von um að háloftalægðin sem ræður veðri hér þessa dagana myndi hörfa til suðurs og þar með hleypa hlýrra og þurrara lofti til landsins úr austri. Sú von sé hins vegar alveg liðin hjá og litlar breytingar að sjá á næstunni.

Trausti segir í samtali við mbl.is að úrkoman á Norðurlandi hafi verið tiltölulega meiri í júlí miðað við suðvesturhornið, þar sem úrkoman hafi verið jafnari. 

Þá segir hann, að fyrsti þriðjungur júlímánaðar hafi víða verið sá blautasti á svæðum þar sem samfelldar mælingar hafa ekki staðið yfir í mjög langan tíma. Til dæmis hefur rignt tvöfalt á við það sem mest hefur verið áður á Birkihlíð í Súgandafirði, en þar hófust samfelldar mælingar árið 1997. Samfelldar mælingar í Reykjavík ná hins vegar aftur til ársins 1871. 

Hitinn í Reykjavík mest farið í 17 stig í sumar

Er Trausti leit yfir fimmtán veðurstöðvar sagði hann að sex þeirra væru komnar yfir meðalúrkomu í öllum júlímánuði, en hann tók fram að Reykjavík væri ekki þar á meðal. 

Það sem af er sumri hefur hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík á mönnuðu veðurstöðinn ekki verið nema 16,5 stig og 17 stig á sjálfvirku stöðinni. Hæsti hiti á sjálfvirku stöðinni í júlí er aðeins 15,4 stig. „Við vildum helst hafa þetta um 18 til 20 [gráðum],“ segir Trausti.

Það virðist því ljóst að regnstakkurinn mun áfram leika stórt hlutverk á höfuðborgarsvæðinu sem og víða um land. Maður getur í það minnsta verið í stuttermabol innanundir.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert