Þarf að standast ýmis öryggispróf

Íslenska liðið á Silverstone-brautinni.
Íslenska liðið á Silverstone-brautinni. Mynd/Team Spark

„Við mættum á miðvikudag og settum upp tjaldbúðirnar og básinn auk þess að setja bílinn aftur saman eftir flutninga. Undirbúningurinn var mjög tæpur en við stunduðum prófanir þar til einungis klukkustundum áður en bíllinn fór í flug,“ segir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, liðsstjóri hjá Team Spark sem tekur þátt í alþjóðlegu kapp­akst­urs- og hönn­un­ar­keppn­inni Formula Stu­dent sem hald­in er á hinni frægu Sil­verst­one-keppn­is­braut í Bretlandi. 

„Keppnin sjálf hófst á fimmtudag en þá var hægt að byrja í öryggisprófunum (e. scrutineering). Eftir hádegi opnaði svo fyrir hallaprófið (e. tilt test) og bremsupróf, en við þurfum ekki að taka þátt í háfaðaprófinu (e. noise test). Í gær, föstudag, hélt svo sama prógramm áfram auk þess sem opnaði fyrir æfingasvæðið fyrir þau lið sem hafa klárað öll öryggisprófin. Sigurstrangleg lið eins og AMZ frá Sviss, sem vann í fyrra og DUT Racing frá Delft í Hollandi sem lentu í öðru sæti í fyrra, verið að basla við það að komast í gegnum öryggisprófin í dag og í gær. Svo skemmtilega vill einnig til að við erum í sjö liða bílskúr með þessum tveimur liðum.“

Keppt í 22 km kappakstri á Silverstone-brautinni

Öryggisprófunum lýkur í kvöld og hefjast akstursgreinarnar á morgun. Fyrir hádegi er svokallaður „áttuakstur“ og hröðun og svo verður stutt tímataka í lok dags. Á sunnudaginn fer svo sjálf aksturskeppnin fram þar sem keppt er í 22 km kappakstri á Silverstone-brautinni. 

„Auðvitað er það okkar einlæga von að ná að komast í þessa viðburði en þess ber þó að gæta að minna en 50% liða komast í gegnum öryggisprófin. Þetta er fyrsta árið sem Team Spark fer með akandi bíl á keppnina svo það má ekki gleyma því að þetta er risastór sigur fyrir liðið og Háskólinn, aðstandendur og aðrir Íslendingar mega svo sannarlega vera stoltir. Ég er í það minnsta að springa úr stolti yfir þessu stórglæsilega og ofurduglega liði! Það að við séum komin inn í öryggisprófið er einnig mun lengra en nokkur bíll frá liðinu hefur náð hingað til,“ segir Ragnheiður. 

3000 keppendur frá 38 löndum

Alls taka þátt 103 bílar sem eru jafnmismunandi og þeir eru margir. Koma keppendurnir frá 38 löndum og 38 háskólum. Eru keppendur alls um 3 þúsund talsins. Ragnheiður segir að það sé margt sem hægt sé að læra frá hinum liðunum. „Lausnirnar eru óendanlega margar. Að sjálfsögðu er grunnurinn allur sambærilegur en hönnun bílanna er mjög mismunandi.“ 

Hún segist bjartsýn á framhaldið þótt um afar strembna keppni sé að ræða. 

„Þetta gekk vel hjá okkur í dag og við fengum einungis lítilvægar athugasemdir sem auðvelt er að laga.“

Dagskrá liðsmanna Team Spark er strembin. „Hingað til hefur dagskráin einkennst af því að við vöknum kl. sex á morgnana og förum beint upp á braut til að vinna í bílnum til að gera hann tilbúinn. Við kappkostum því við að lagfæra og betrumbæta bílinn yfir allan daginn. Svo eru nokkrir liðsmenn settir á matarvaktir og sjá því til þess að allir liðsmenn séu vel nærðir hvar svo sem þeir eru staddir.“

„Vandamálin hafa vissulega verið fleiri en eitt en okkur hefur tekist að takast á við öll þau vandamál sem koma hafa upp hingað til.“

Sjá frétt mbl.is: Hönnuðu rafknúinn kappakstursbíl 

Sjá Facebooksíðu hópsins

Bíllinn þarf að standast hallapróf þar sem hann þarf að …
Bíllinn þarf að standast hallapróf þar sem hann þarf að þola 60 gráðu halla. Mynd/Team Spark
Mynd/Team Spark
Bíllinn í flutningunum til Bretlands.
Bíllinn í flutningunum til Bretlands. Mynd/Team Spark
Liðsmenn Team Spark keppast við að lagfæra bílinn.
Liðsmenn Team Spark keppast við að lagfæra bílinn. Mynd/Team Spark
Kappakstursbíllinn sjálfur.
Kappakstursbíllinn sjálfur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert