Bólusetning eina vörnin

Lífið heldur áfram. Hér sést Svante að störfum fyrir Aftonbladet …
Lífið heldur áfram. Hér sést Svante að störfum fyrir Aftonbladet í Norður-Svíþjóð. AFTONBLADET / Lotte Fernvalla

Í ágúst 2008 hafði sænski blaðamaðurinn Svante Liden, verið í sumarfríi ásamt konu sinni. Á leiðinni heim til Uppsala, þar sem hjónin eru búsett, fékk Liden gífurlegan höfuðverk sem ágerðist með hverri mínútunni. 

Eiginkona Liden, sem er læknir, gerði honum grein fyrir því að hann þyrfti að fara á bráðamóttökuna og láta athuga hvað væri í gangi. Eftir nokkuð mótlæti samþykkti Liden það og fór á bráðamóttöku háskólasjúkrahússins í Uppsala. Þá kom í ljós að Liden hafði verið bitinn af skógarmítli í fríinu og var greindur með TBE, eða mítlaheilabólgu. Liden veiktist mikið í kjölfarið og hefur sjúkdómurinn áhrif á líf hans enn þann dag í dag. 

„Ég er betri núna. Ég vinn ansi mikið á blaðinu en ég er ekki eins og ég var. Ég mun aldrei ná því, segir Liden í samtali við mbl.is. „Ég er mjög viðkvæmur fyrir ljósi og hljóði og ég á oft erfitt með að tjá mig.“

Að sögn Liden er hann með töluvert minni kraft í handleggjunum og verður einnig var við við minnistruflanir. „Ég á til dæmis erfitt með að muna nöfn sem er mjög slæmt fyrir mig sem blaðamann. Afleiðingar sjúkdómsins eru miklar og munu hafa áhrif á mig allt mitt líf.“

Árið 2012 birtist viðtal við Liden í Aftonbladet. Þar lýsir hann sjúkdóminum og líðan sinni fyrstu árin. Segir hann m.a. frá því hvernig handleggir hans voru lamaðir að hluta og hvernig hann hafi misst bæði jafnvægi og samhæfingu.

Þegar síminn hringdi ég svaraði með veskinu. Stundum reyndi ég þó að svara í símann, en þá fann ég hann ekki vegna þess að ég gleymdi hvernig hann leit út eða sá einfaldlega í gegnum hann,“ sagði Liden m.a. í viðtalinu.

Mokaði vikur í Vestmannaeyjum

Linden er blaðamaður á Aftonbladet í Svíþjóð en hann var búsettur hér á landi í þrjú ár á áttunda áratugnum, frá 1974 til 1977. Hann var meðal sjálfboðaliða að moka vikur í Vestmannaeyjum eftir gosið og bjó um tíma í Reykjavík þar sem hann lærði íslensku.

Liden hefur síðan haldið góðu sambandi við land og þjóð og talar enn ágæta íslensku. „Ég kom til dæmis aftur til Vestmannaeyja fyrir nokkrum árum og það var mikil upplifun að sjá hvað eyjan hefur breyst mikið,“ segir Liden.

Þegar Liden bjó í Reykjavík bjó hann við Aðalstræti 16. Samkvæmt Liden hafð sú staðsetning mikil áhrif á líf hans en þá bjó hann nálægt húsnæði Morgunblaðsins. „Morgunblaðið var í næsta húsi og ég gat séð inn til blaðamannanna frá íbúðinni minni. Það ýtti undir áhuga minn á að verða blaðamaður og hvatti mig til þess að fara heim og læra. Ég les blaðið enn í dag.“

Leggst á miðtaugakerfið

Samkvæmt grein sem birtist á vef embættis Landlæknis stafar mítilborin heilabólga, eða TBE eins hún er kölluð á ensku af veirusýkingu sem leggst á miðtaugakerfið. Segir jafnframt að sjúkdómurinn hafi færst í vöxt undanfarna þrjá áratugi og er að finna víða í Evrópu og Asíu. Skógarmítlar bera bakteríuna og berst hún í menn þegar mítlarnir bíta í til að nærast á blóði. 

Á vef landlæknis kemur jafnframt fram að kjöraðstæður skógarmítils eru skógi vaxin svæði sem bjóða upp á dýralíf sem sér mítlinum fyrir blóði. Skógarmítill fannst fyrst hér á landi á farfugli árið 1967 og hefur fundist af og til síðan. Nú er hinsvegar skógarmítillinn orðinn landlægur hér á landi og var það staðfest af heilbrigðisráðuneytinu árið 2009. Skógarmítlar komu aftur upp í fjölmiðlum í síðustu viku eftir að upp komst að ferðamenn beri hingað til lands rakkamítil sem er önnur tegund af mítli.

„Ég las í Morgunblaðinu um að skógarmítlar væru komnir til Íslands og mér finnst það hræðilegt. Svíþjóð er skógarland, við erum með moskító-flugur og allskonar skordýr sem sjúga blóð og það er einfaldlega ein af staðreyndum lífsins,“ segir Liden.

Liden segist hafa verið mikill náttúrumaður áður en hann veiktist sem stundaði útivist. Það hefur breyst. „Núna vill ég ekki einu sinni labba í grasi. Það að þetta sé komið til Íslands er mjög slæmt. Ég hafði hugsað um Ísland sem öruggan stað til þess að fara á eftirlaun þar sem það var laust við mítla,“ segir Liden og bætir við hlæjandi, „Ætli ég endi ekki bara á Svalbarða, þar eru bara ísbirnir. Ég er ekkert hræddur við þá. Ég er bara hræddur við einn hlut og það eru skógarmítlar.“

Íhugaði sjálfsmorð

Fyrstu mánuðina eftir að Liden veiktist varð hann mjög þunglyndur. „Ég var mjög veikur og í tilvistarkreppu. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri tvennt í stöðunni. Annað hvort að fara upp á háaloft og hengja mig eða setjast við ritvélina og skrifa eitthvað.“

Grein Liden um veikindi sín birtist í blaðinu sem Liden starfar hjá Aftonbladet í apríl 2009. Hún hét „Skallen kokar, svetten forsar – dör jag?“, eða „Höfuðkúpan mín brennur, ég svitna – mun ég deyja?“ og segir Liden að hún sé líklegast það besta sem hann hefur skrifað. „Eftir að ég skrifaði greinina komst ég samband við aðra sem hafa fengið TBE í Svíþjóð. Þetta var fólk sem mun aldrei aftur geta unnið og jafnvel aldrei aftur átt í sambandi við umheiminn. “

Að sögn Liden hafði TBE líka áhrif á þá sem standa honum næst. „Fyrstu mánuðina var ég bara farinn. Ég vissi voða lítið og lá bara fyrir. Þá sérstaklega átti fjölskyldan mjög erfitt. Hún gerir það þó ennþá því hún sér áhrifin á hverjum degi.“

Samkvæmt Liden hafði það almenna álit að aðeins eldra fólk veiktist af TBE verið ráðandi í Evrópu um langt skeið. Nú er það þó að breytast og yngra fólk og börn eru æ oftar að veikjast. „Það hafa komið upp dæmi um börn sem fara að haga sér öðruvísi og fólk heldur að þau séu kannski með asperger eða einhverja aðra röskun. Svo kemur í ljós að þau eru með TBE og það útskýrir breytinguna í persónuleika, þetta er hörmulegur sjúkdómur.“

Bólusetning er helsta vörnin

Helsta vörnin gegn TBE er bólusetning og er hún í boði í þeim löndum sem sjúkdómurinn er landlægur. „Bólusetningin er mjög aðgengileg hér í Svíþjóð. Hún kostar reyndar 1000 sænskar krónur (tæpar 17 þúsund íslenskar krónur) og maður fær þrjár sprautur. Ég hef í nokkur ár verið talsmaður þess að fólk eigi að fara í bólusetningu við þessu. Ég er stundum kallaður „Herra TBE“ á Norðurlöndunum útaf þessari baráttu minni. Hún er vonandi að hafa einhver áhrif þar sem að fólk er að fara og fá bólusetningu við þessu í auknum mæli,“ segir Liden.

Samkvæmt Liden eru líkurnar á að fá TBE nokkuð litlar. „En þetta getur gerst og ef maður þekkir áhættuna getur maður aðeins kennt sjálfum sér um og það geri ég vissulega. Ég vissi af þessu en ákvað samt að ég hefði mikilvægari hluti til að eyða peningunum mínum í. Ég mun sjá eftir þessu alla mína ævi.“

Liden kallar það heimsku að hafa ekki farið í bólusetningu á sínum tíma. „Konan mín er læknir og það er heilsugæsla hinum megin við götuna þar sem við búum. Ég hef engar afsakanir, þetta er bara heimska. Þetta er eins og reykingar, það er hættulegt að reykja en það er einnig hættulegt að sleppa bólusetningum.“

Aðspurður um hvað íslendingar geti gert til þess að forðast skógarmítla og áhrifin sem geta fylgt því að vera bitin af skordýrinu segir Liden að það séu tveir möguleikar í stöðunni. „Það er annarsvegar hægt að drepa allt sem flýgur, allt sem hreyfist og brenna allt grasið. Svo er hægt að láta alla fara í bólusetningu. Seinni möguleikinn er líklegast einfaldari.“

Svante hefur ekki jafnað sig eftir veikindin þó svo að …
Svante hefur ekki jafnað sig eftir veikindin þó svo að sex ár séu liðin. Hann á erfitt með jafnvægi og samhæfingu og er með lítinn kraft í handleggjum. Hann mun líklegast aldrei jafna sig alveg eftir TBE. AFTONBLADET / Urban Anderson
Svante Liden
Svante Liden AFTONBLADET / Magnus Wennman
Svante á toppi Eldfells 1974. „Það var svo heitt þarna …
Svante á toppi Eldfells 1974. „Það var svo heitt þarna að sólarnir á stígvélunum mínum bráðnuðu,“ sagði Svante m.a. Kristina Westerberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert