Dauðsföll vegna sterkra verkjalyfja enn til skoðunar

Vinsæl lyf meðal fíkla - Nokkur dauðsföll eiga sér stað …
Vinsæl lyf meðal fíkla - Nokkur dauðsföll eiga sér stað árlega tengd notkun sterkra verkjalyfja mbl.is/Golli

Fleiri dauðsföll hafa bæst við þau átta sem embætti landlæknis ákvað að skoða í mars síðastliðnum og tengjast notkun sterkra verkjalyfja. Oft er um að ræða fíkla sem leysa lyfin upp og sprauta sig með þeim. Er þá meðal annars skoðað hvernig þeir fengu lyfin og hvort um læknaráp sé að ræða. 

„Í mörgum tilfellum fá fíklar þessum lyfjum ávísað sjálfir. Þá er gjarnan um svokallað læknaráp að ræða (e. doctor shopping), en þá er farið til fjölmargra lækna og fengið lítið magn lyfja hjá hverjum og einum án þess að læknarnir viti hver af öðrum,“ Magnús Jóhannsson, læknir hjá embætti landlæknis, í samtali við mbl.is. „Mikið af þeim fyrirspurnum sem við fáum eru frá læknum sem hringja með grunsemdir um að verið sé að flakka milli lækna.“

Hinsvegar séu mörg önnur tilfelli þar sem fíklar fengu lyfjunum ekki ávísað sjálfir og ekki alltaf gott að segja hvort um misnotkun lyfjanna sé að ræða. „Margir sprautufíklar virðast einfaldlega nota það sem þeir koma höndum yfir hverju sinni, hvort sem það eru lögleg eða ólögleg fíkniefni.“

Gagnagrunnur ekki kominn fyllilega í notkun

Embætti land­lækn­is hef­ur rekið lyfja­gagna­grunn frá ár­inu 2002 og hafa gögn úr hon­um reynst mik­il­væg bæði til að fylgj­ast með þróun lyfja­notk­un­ar og ávís­ana­venj­um lækna. Á ár­inu 2012 var gagna­grunn­ur­inn flutt­ur í raun­tíma­upp­færsl­ur og hafa lækn­ar haft mögu­leika frá sama ári á aðgangi að raun­tíma­grunn­in­um í prufu­verk­efni. Með því að fletta upp í hon­um fá þeir all­ar upp­lýs­ing­ar um lyfja­notk­un skjól­stæðinga sinna síðastliðin þrjú ár.

„Verið er að byggja upp nýjan lyfjagagnagrunn sem læknar hafa sjálfir aðgang að á netinu og við bindum vonir við að það vinni gegn læknarápi. Þá geta læknar gáð sjálfir á meðan þeir eru með sjúklingi hvaða lyfjum hann hefur fengið ávísað. Svo er líka hægt að sjá hvort einhver lyf bíði úthlutunnar í svokallaðri rafrænni lyfseðlagát. Það eru bundnar miklar vonir um að þessi grunnur komist betur í gagnið þegar liðið er á árið, en það fer ekki allt inn á hann eins og er. Læknaráp er vonandi eitt af því sem mun lagast.“

Tramadól nýlega eftirritunarskylt

Tramadól, virkt efni sem fyrirfinnst í nokkrum lyfjum hérlendis, var fyrst gert eftirritunarskylt hér á landi 1. janúar 2013. „Um það bil tvö dauðsföll á ári áttu sér stað þar sem tramadól virtist vera meginorsökin áður en það var gert eftirritunarskylt. Ekki er gott að segja hvort sú tala hafi lækkað síðan þá,“ segir Magnús en hann bindur vonir við að eftirritunarskylda tramadóls sé annar þáttur sem stuðli að fækkun dauðsfalla vegna sterkra verkjalyfja.

Efnið hefur svipuð áhrif og morfín og tilheyrir flokki sterkra verkjalyfja eða ópíata. Eftirritunarskyld lyf gangast undir ákveðnum hömlum á ávísunum. Þannig er ákveðið hámarksmagn sem má ávísa og ekki er hægt að símsenda ávísanir. Svo þegar lyfin eru leyst út þarf sá sem sækir lyfið að mæta með skilríki og kvitta fyrir því að hafa tekið á móti lyfjunum.

Fangar smygla inn fentanýl-plástrum

Samkvæmt tilkynningu sem embætti landlæknis barst frá Fangelsismálastofnun finnast fentanýl plástrar oft við leit í fangelsum. Fentanýl er annað lyf sem tilheyrir flokki ópíata. Um er að ræða sterkt verkjalyf sem er notað í formi sérstakra forðaplástra sem eru glærir og því erfitt að finna þá í hefðbundnum leitum.

„Það er allt reynt sem hægt er til að koma í veg fyrir að plástrarnir komist inn. Það er hinsvegar ekki hægt að koma í veg fyrir umferð þeirra. Það eru svo ótalmargar leiðir til að smygla plástri að það er varla hægt að telja þær upp,“ segir Tryggvi Ágústsson, deildarstjóri á Litlahrauni. Tryggvi segir heimsóknir gesta vera algengasta leiðin til að smygla inn plástrunum.

Dæmi eru um að fangar leysi fentanýl úr plástrum í heitu vatni og noti í te.

Lyfinu fentanýl er oft smyglað til fanga
Lyfinu fentanýl er oft smyglað til fanga Rax / Ragnar Axelsson
Lyfjagagnagrunnur mun sýna læknum lyfjanotkun einstaklinga 3 ár aftur í …
Lyfjagagnagrunnur mun sýna læknum lyfjanotkun einstaklinga 3 ár aftur í tímann og óafgreiddar lyfjaávísanir á nafni þeirra. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert