Hlakka til úrslitaleiksins í Brasilíu

Argentínumaðurinn Julian Burbos, sonur hans Elias Burbos og Patrizia Angela …
Argentínumaðurinn Julian Burbos, sonur hans Elias Burbos og Patrizia Angela Sanmann. mbl.is/Árni Sæberg

Þau Julian Burbos frá Argentínu og Patrizia Angela Sanmann, sem er hálfur Þjóðverji og hálfur Ítali, hlakka mikið til þess að horfa á fótboltalandslið sín spila úrslitaleik HM í knattspyrnu á sunnudaginn.

„Ég held að hið ótrúlega gerist og Argentína standi uppi sem sigurvegari. Það getur allt gerst í fótbolta,“ segir Julian í Morgunblaðinu í dag, en hann telur Þjóðverja vera sigurstranglegri á sunnudaginn. Julian hefur búið á Íslandi í fimm ár ásamt eiginkonu sinni frá Ekvador og syni þeirra, Elias. Julian, sem er sjávarlíffræðingur að mennt og starfar hjá Hafrannsóknastofnun, býst við að mjótt verði á munum á morgun.

Patrizia starfar sem leiðsögumaður á hvalaskoðunarskipinu Andreu og hefur búið á Íslandi í sex ár ásamt íslenskum manni sínum. Þau eiga tveggja mánaða gamla dóttur. Hún vonar að leikurinn endi ekki eins og á móti Brasilíu heldur verði spennandi allan tímann.

Spáir 3-1 fyrir Þýskalandi

„Mér finnst mun skemmtilegra að horfa á spennandi leik þar sem annað liðið er ekki búið að gera út um leikinn eftir hálftíma,“ segir Patrizia. Hún segir tvö góð lið vera að mætast á morgun.

„Argentínumenn voru flottir á móti Hollendingum svo ég á von á að þetta verði spennandi úrslitaleikur. Ég spái því að leikurinn fari 3-1 fyrir Þýskalandi,“ segir Patrizia. Julian skýtur inn í að sama hvernig leikurinn fari á morgun þá hafi Argentína náð betri árangri en gestgjafar mótsins, Brasilía.

„Það er næstum því jafngott og að vinna HM. Brasilíumenn munu ekki vera glaðir ef Argentína vinnur mótið,“ segir Julian. Hann segir tengslin milli Argentínu og Brasilíu vera mjög sterk á felstum sviðum en þegar komi að fótbolta sé mikið hatur milli nágrannalandanna.

„Ef við vinnum á morgun munu þeir ábyggilega aldrei halda HM aftur. Árið 1950 töpuðu Brasilíumenn úrslitaleik á móti Úrúgvæ á heimavelli. Það mun gera út af við þá ef við vinnum bikarinn í þeirra landi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert