Pönkið kom á óvart

Purrkur Pillnikk á tónleikum.
Purrkur Pillnikk á tónleikum. Einar Falur Ingólfsson

„Ég aflaði heimilda aðallega í formi viðtala. Ég talaði við 29 einstaklinga sem tóku þátt í pönk senunni á einn eða annan hátt. Þá bæði fólk sem var í hljómsveitum og fólk sem tók þátt í menningunni, klæddi sig upp, mætti á tónleika og hékk á Hlemmi eða Skiptistöðinni,“ segir Unnur María Bergsveinsdóttir um meistararitgerð sína sem hún skrifaði í sagnfræði við Háskóla Íslands. 

Titill ritgerðarinnar er „Ekta íslenskt pönk? Myndun íslenskrar pönkmenningar“ og segir frá upphafi pönks og pönkmenningar á Íslandi. Leiðbeinendur Unnar Maríu voru Guðmundur Jónsson og Árni Daníel Júlíusson, en hann var einmitt meðlimur Snillinganna, Q4U og Taugadeildarinnar, en það voru allt hljómsveitir sem voru mikilvægur hluti af tilurð og mótun pönkmenningar hér á landi.

 „Þetta er svona frá sumrinu 1980 til 1982. Ég segi frá hvernig pönkið kemur til Íslands og nemur hér land og hvernig sú pönkmenning, sem sást til dæmis í „Rokk í Reykjavík“, verður til,“ segir Unnur María og bætir við að lítið hafi verið skrifað um upphaf pönks hér á landi. „Saga pönks hefur frekar verið skoðuð út frá sögu hljómsveitanna sem „meikuðu“ það þar sem sú saga er náttúrulega aðgengilegust. En ég vildi líka skoða upplifun hinna sem gerðu það kleift að pönkmenningin varð til. Ef enginn mætti á tónleika þýddi náttúrulega ekki að halda þá.“

Ætlar sér að skrifa bók í framhaldinu

Samkvæmt Unni Maríu fékk hún gífurlega mikið efni út úr viðtölunum. Þau lengstu voru allt að þriggja tíma löng og varð til meira efni en Unnur María gat notað í ritgerðinni. Unnur María stefnir á að búa til bók um upphaf pönks á Íslandi og mun hún hefjast handa í haust. „Ég fékk svo mikið af góðum sögum og athyglisverðum frásögnum sem mér finnst ég verði að koma til skila.“

Að sögn Unnar Maríu var margt sem kom henni á óvart við skrifin. „Það sem mér fannst eiginlega athyglisverðast var sú staðreynd að pönkið kemur mjög seint til Íslands, eða um 1980. Þá var að mestu leyti búið að lýsa því yfir að pönkið væri dautt á meginlandi Evrópu, en það hófst töluvert fyrr eða um 1976 í Evrópu. Það hefur töluverð áhrif á pönkmenningu hér á landi. Þá hafði pönkið þróast í marga undirstrauma og þegar það kemur loksins hingað fáum við alla þessa strauma á einu hlaðborði til okkar og senan verður mun fjölbreyttari en þekktist erlendis,“ segir Unnur María. „Þegar senan er svona lítil eins og hér var ekkert annað í stöðunni en að mismunandi sveitir þurftu að vinna saman og út úr því kom skemmtileg blanda.“

Pönkarar ódýrir í rekstri

Unnur María komst einnig að því að pönkmenningin hér á landi hafi verið mjög opin og að auðvelt hafði verið að vera tekinn inn í hana. Ekki voru ströng skilyrði fyrir því að vera pönkari félagslega séð, eins og í klæðaburði. „Ég eiginlega bjóst við því að fólk myndi segja að það hefðu verið ákveðnar reglur, „Þú þarft að líta svona og svona út til að vera pönkari“, en það var alls ekki þannig.“

Þó varð Unnur María vör við það að konur nefndu frekar ákveðinn klæðaburð en karlar. Þær töluðu m.a. um mikilvægi þess að hafa „rétta útlitið“ á meðan þetta var einfaldara fyrir karlkyns pönkara. „Reyndar nefndu margir karlkyns viðmælendur mínir að foreldrar þeirra hafi verið ánægðir að þeir fóru í pönkið því þá urðu þeir svo ódýrir í rekstri. Þeir voru bara í einhverjum jakkafötum af öfum sínum eða lopapeysum og leðurjakka og ekki eins dýrir í rekstri eins og þeir voru kannski á diskótímabilinu.“

Þörf á lifandi tónlist hér á landi þegar pönkið kom

Við gerð ritgerðarinnar komst Unnur María jafnframt að þvi að þegar pönkið kom til landsins var ákveðin vöntun á lifandi tónlist á Íslandi. „Í kringum 1978 og 1979 var miklu minna um lifandi tónlist hér á landi. Það voru eiginlega engir tónleikar, sem tengist að einhverjum hluta diskómenningunni sem náði hápunkti á þeim tíma. Til að mynda höfðu skólayfirvöld í Reykjavík tekið upp þá stefnu að banna hljómsveitir á skólaböllum í gagnfræðiskóla því þau tengdu það við unglingadrykkju. Það var náttúrulega bara dauði fyrir þá sem höfðu tónlistarflutning að lifibrauði. Krakkarnir kynntust ekki tónlistinni og skiluðu sér ekki á sveitaböllin á sumrin. Þetta og nokkrir aðrir þættir gerðu það að verkum að það var engin hefð fyrir lifandi tónlist hér á landi þegar pönkið mætir og það var vissulega þörf á því.“

Að mati Unnar Maríu veitti það stefnunni aukinn meðbyr að hún kom á tíma þar sem ákveðin lægð var í gangi. „Það var svo lítið í gangi fyrir tónlistaráhugamenn þannig að pönktónleikar höfðuðu til stærri hóps en aðeins þeirra sem höfðu áhuga á hörðu pönki. Viðmælendur mínir lýsa þessu eins og ferskum vindi og sem ákveðinni byltingu þar sem allt í einu var allt að gerast.“

Hafði jákvæð áhrif á tungumálið

Unnur María telur að pönkið hafi haft jákvæð áhrif á íslenskuna. „Pönk er alþjóðlegur menningastraumur sem kemur hingað erlendis frá. Þess vegna er það mjög athyglisvert að það eru pönksveitirnar sem virkilega byrja að syngja á íslensku. Megas var þá reyndar búinn að sýna að maður getur verið rokkari á íslensku en pönksveitirnar héldu áfram með þetta. Jafnframt voru margar sveitir í skemmtilegum leik við íslenskuna og einfaldlega léku sér með tungumálið eins og Purrkur Pillnikk.“

Aðspurð um viðbrögð þeirra 29 viðmælenda sem hún ræddi við segir Unnur María að þau hafi vissulega verið misjöfn en öll jákvæð. „Sumum kannski brá svolítið og fannst skrýtið að það væri komið svona langt síðan þetta var í gangi. Ég þurfi reyndar stundum að sannfæra þá sem voru ekki í hljómsveit að það væri mikils virði að heyra sögu þeirra.“

Pönkið í útlöndum ruddalegra

Unnur María skoðaði einnig umfjöllun um pönk í íslenskum fjölmiðlum. „Fólk vissi af pönkinu sem var í gangi úti í heimi og leit yfirleitt á það sem eitthvað hrikalegt. Fjölmiðlar fjölluðu um pönkið og gekk það aðallega út á að sýna ruddalegt háttarlag og sóðaskap. Alveg bara „Sjáið hvað þetta fólk er skrýtið“ í staðinn fyrir að tala um tónlistina. Það var að einhverju leyti verið að ala á erlendri æsifréttamennsku.“

Það breyttist þó allt þegar pönkið kom til Íslands. „Þegar íslensku sveitirnar fara af stað gjörbreytist umfjöllunin og  hún varð mun jákvæðari og það var enginn grundvöllur fyrir sömu æsifréttamennsku og áður. Mér fannst þessar sveitir vera almennt að fá mjög fína og sanngjarna umfjöllun sem kom mér svolítið á óvart. Ég hafði ímyndað mér að þær hefðu frekar átt erfitt uppdráttar,“ segir Unnur María. „En þá spilar kannski bara þessi þörf og þorsti fyrir lifandi tónlist inn í.“

Aðspurð segir Unnur María að margt hafi komið henni á óvart við skrifin og að henni hafi fundist þetta mjög skemmtilegt viðfangsefni. „Þetta var mjög athyglisvert tímabil, sérstaklega þar sem pönkið hefur breyst svo mikið á þessum tíma síðan það varð til fyrir rúmum 30 árum. Það var mjög gaman að skoða þá þróun.“

Er húlladúllan

Unnur María kemur fram ásamt Sirkus Íslands sem er með sýningar á Klambratúni þessa dagana. Aðspurð segir hún að það gangi vel að blanda saman fræðimennskunni og sirkuslífinu. „Ég sýni húllalistir í sirkusnum. Ég er húlladúllan. Það er alveg frábært að geta tekið góða húlla æfingu eftir að hafa setið í marga tíma á rassinum að skrifa.“

Unnur María sýnir húllalist í Sirkus Íslands.
Unnur María sýnir húllalist í Sirkus Íslands. Þórður Arnar Þórðarson
Hér má sjá frétt um hljómsveitina Fræbblana sem birtist í …
Hér má sjá frétt um hljómsveitina Fræbblana sem birtist í Morgunblaðinu 2. apríl 1980.
Pönksveitin Þeyr var vinsæl í byrjun 9. áratugarins. Þessi mynd …
Pönksveitin Þeyr var vinsæl í byrjun 9. áratugarins. Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu 6. desember 1981.
Einar Örn og félagar í Purrki Pillnikk. Birtist í Morgunblaðinu …
Einar Örn og félagar í Purrki Pillnikk. Birtist í Morgunblaðinu 17. apríl 1982.
Pönkarinn Bjarni Móhíkani var í hljómsveitinni Sjálfsfróun. Birtist í Morgunblaðinu …
Pönkarinn Bjarni Móhíkani var í hljómsveitinni Sjálfsfróun. Birtist í Morgunblaðinu 25. október 1981.
Frá frumsýningu kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík. Birtist í Morgunblaðinu 20. …
Frá frumsýningu kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík. Birtist í Morgunblaðinu 20. apríl 1982.
Unnur María segir að sirkuslífið og fræðimennskan eigi vel saman.
Unnur María segir að sirkuslífið og fræðimennskan eigi vel saman. Þórður Arnar Þórðarson
Unnur María Bergsveinsdóttir.
Unnur María Bergsveinsdóttir. Mynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert